Fyrirtækið Hugsmiðjan hefur gert samning við evrópsku samtökin European Healthcare Fraud & Corruption Network, en höfuðstöðvar þeirra eru í Brussel.

Hugsmiðjan mun sjá um ráðgjöf, hönnun og forritun á nýjum vef samtakanna sem byggður verður á vefumsjónarkerfinu Eplica sem er alíslensk hönnun.

Nýr vefur mun geyma upplýsingar um samtökin ásamt því að vera aðgangsstýrður samráðsvettvangur fyrir fagaðila í Evrópu sem vinna gegn tryggingasvikum og spillingu á heilbrigðissviði.

Ragnar Marteinsson, framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar, segir í tilkynningu að í samningnum felist mikil viðurkenning á því að íslenskt hugvit standist fyllilega samanburð við það besta í Evrópu. Það sé góð tilfinning að taka þátt í útflutningi á íslensku hugviti og þetta sé bara byrjunin hjá Hugsmiðjunni.