Hugvit fékk í gær ein mikilvægustu verðlaun sem veitt eru á Lotusphere ráðstefnunni sem nú stendur yfir í Orlando í Flórída, en Lotusphere er einn stærsti viðburður ársins hjá IBM . Þúsundir manna leggja leið sína á ráðstefnuna á hverju ári, þar á meðal stór hópur Íslendinga, segir í fréttatilkynningu.

Á Lotusphere koma saman viðskiptavinir og samstarfsaðilar IBM/Lotus hvaðanæva úr heiminum til að sjá það allra nýjasta sem í boði er hjá bæði hjá IBM  og samstarfsaðilum.

Verðlaunin, Best in Lotusphere Showcase Award, fékk Hugvit fyrir GoPro lausn sína en Hugvit hefur þróað lausnina á grunni IBM Lotus hugbúnaðar í bráðum 15 ár samfleytt. Ennfremur hefur Hugvit á síðustu misserum staðið í gríðarlega umfangsmikilli vinnu við þróun GoPro í IBM Websphere umhverfi, einnig frá IBM, en þar er um svokallaða Portal tækni að ræða .

Við mat á verðlaunahafa er meðal annars litið til þess hversu hugvitsamlega staðið hefur verið að verki við hönnun á lausninni og aðlögun hennar að IBM hugbúnaði.

Eins og segir í frétt frá IBM hafa þeir sem hljóta þessi verðlaun búið til einstaka, ferska og kraftmikla lausn sem gefur viðskiptavinum umtalsverðan virðisauka.

Verðlaunin eru mesta alþjóðlega viðurkenning sem Hugvit hefur hlotnast fyrir vörur sínar.

Um GoPro og Hugvit

GoPro er öflugt íslenskt upplýsingakerfi fyrir fyrirtæki og stofnanir sem vilja ná árangri í rafrænni stjórnun skjala og verkefna. GoPro byggir á tækni bæði frá Microsoft og IBM. Þróun GoPro byggir á nánu og áralöngu samstarfi við viðskipavini hér á landi og erlendis. Áætlaður fjöldi notenda er um eitt hundrað þúsund og fer ört fjölgandi.

Hugvit hf. hefur þróað GoPro hugbúnaðinn frá árinu 1993. Um 500 fyrirtæki og stofnanir um allan heim nota GoPro til að tryggja aðgengi að nauðsynlegum upplýsingum. Þar á meðal eru íslensku ráðuneytin,lögregla og sýslumenn,Icelandair, Samskip,Landsbankinn, Ölgerðin Egill Skallagrímsson, Metropolitan Police Service, Oxford háskóli og fjöldisveitarfélaga hér á landi og erlendis.

Hugvit er með starfsstöðvar í Reykjavík, Akureyri,Danmörku,Þýsklandi, Englandi og Sofiu í Búlgaríu.