Faraday Future er leyndardómsfullt rafbílafyrirtæki sem hyggst  keppa við Tesla Motors, eitt vinsælasta rafbílafyrirtæki heims.

Nú hefur yfirlýsing frá fyrirtækinu verið gefin út sem segir að hulunni verði svipt af fyrsta hugmyndabíl fyrirtækisins á CES, Consumer Electronics Show, í janúar á næsta ári.

Heimildir herma að þessi enn ónefndi hugmyndabíll verði með rafhlöðu sem dregur 15% lengra en 85kW rafhlaða Tesla Model S. Það gefur ríflega 480 kílómetra drægni.

Sveipað dulúð og ráðgátum

Faraday hefur til þessa verið vísvitandi gífurlega dularfullt, eflaust í þeim tilgangi að byggja upp markaðsumtal og dulúð. Engar góðar myndir hafa verið gefnar út af hugmyndabifreiðum félagsins til þessa.

Það var aðeins eftir miklar rannsóknir sem erlendir blaðamenn komust að því hver framkvæmdastjóri fyrirtækisins er - kona að nafni Chaoying Deng.

Enn er óvíst hver stofnandinn er nákvæmlega, en gögn benda til þess að hann heiti Jia Yueting, kínverskum athafnamanni og stofnanda fjölmiðlafyrirtækja.

Nöfn í höfuð vísindamanna

Ef til vill hefur stofnandi Faraday Future sótt sér innblástur í sama grunn og Elon Musk þegar hann stofnaði Tesla Motors. Nikola Tesla og Michael Faraday eru báðir virtir vísindamenn sem gerðu mikilvægar uppgötvanir á sviðum rafsegulfræðinnar.

Báðir vísindamennirnir hafa mælieiningar nefnda eftir sér - tesla er mælikvarði á þéttni segulsviða og farad er mælikvarði á rafrýmd.