Það er ekki auðvelt að vera forseti Bandaríkjanna og það hefur George W. Bush fengið að upplifa síðustu átta ár.

Bush mun eins og kunnugt er stíga úr embætti forseta eftir 12 daga og við tekur demókratinn Barack Obama.

Nú lenda allir stjórnmálamenn, líkt og aðrir,  í því að mismæla sig, hvort sem er á opinberum fundum eða í samtali við fjölmiðla.

Þar er Bush ekki undanskilinn og hafa gárungarnir fundið upp heitið „Bushism“ og er það notað þegar einhver mismælir sig herfilega á almannafæri.

Á vef BBC hafa nú verið tekin saman mörg helstu mismæli Bush á síðustu átta árum. Þau eru auðvitað mismunandi og misglettin, eins og þetta hér sem þýtt verður lauslega:

„Mig langar til að þakka vini mínum, Bill Frist öldungadeildarþingmanni fyrir að vera með okkur í dag. Það er rétt að þið vitið að hann giftist stúlku frá Texas. Karyn er með okkur í dag. Hún er Texas stúlka, eins og ég sjálfur.“

Sjá nánar vef BBC.