Um hundrað einstaklingar eru aðilar að hópmálsókn gegn Vodafone vegna gagnalekans sem átti sér stað síðla árs 2013. Þetta kemur fram í svari Skúla Sveinssonar lögmanns á vefnum Spyr.is .

Í lekanum birtust 80 þúsund einkaskilaboð viðskiptamanna Vodafone á netinu og varð fyrirtækið uppvíst að því að hafa geymt skilaboð frá árinu 2010, þrátt fyrir að fjarskiptafyrirtækjum sé aðeins heimilt að varðveita gögn í sex mánuði.

Lesandi Spyr.is veltir fyrir sér hvar málið sé statt í dag og segir Skúli að málið sé þannig statt að stefnuritun hafi verið í gangi og beðið sé eftir endanlegri niðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar varðandi málið. „Stofnunin hefur boðað að niðurstöðu sé að vænta fyrir sumarið og í kjölfar þess munum við fara af stað með málið.  Í málsóknarfélaginu eru ca. 100 einstaklingar í dag,“ segir Skúli.

Hann segist telja að brot Vodafone liggi nokkuð ljóst fyrir þar sem félagið hafi bæði brotið lög varðandi persónuvernd og svo fjarskiptalög.

„Þessi lögbrot eiga að leiða til bótaskyldu félagsins á því tjóni sem varð sem fellst að stærstum hluta í óþægindum fyrir þá sem áttu þessu gögn sem láku út.  Krafa málsóknarfélagins verður um miskabætur til handa þessum hópi,“ segir Skúli.