Spár benda til þess að Bandaríkjamenn hafi keypt um 400.000 dróna fyrir jólin. Bandarísk flugmálayfirvöld opnuðu sérstaka skráningarsíðu fyrir dróna á þriðjudaginn og í gær höfðu 45 þúsund manns skráð flygildi sín.

Í Bandaríkjunum er hefð fyrir því að opna jólapakkana að morgni jóladags og má því búast við því að stór hluti þessara dróna verði notaður í fyrsta skipti á næstu dögum. Bandarísk flugmálayfirvöld og flugfélög hafa lýst yfir áhyggjum af afleiðingum þess þegar svo stór fjöldi óþjálfaðra einstaklinga byrjar að nota flygildi sín á sama tíma. Það geti beinlínis stefnt flugöryggi í hættu.

Samkvæmt reglum í Bandaríkjunum verður að skrá alla dróna sem eru þyngri en 0,55 pund og léttari en 55 pund, eða á milli u.þ.b. 250 gramma og 25 kílógramma. Allur farangur flygilda, svo sem myndavélar, teljast með í þessum útreikningum. Skráning kostar eigendur 5 dollara á ári.

Samkvæmt CNN Money liggur allt að þriggja ára fangelsisvist eða allt að 250 þúsund dollara sekt, jafnvirði 32 milljóna króna, við því að skrá flygildi sitt ekki hjá yfirvöldum.