Magnús Óli Ólafsson, stofnaði Innnes árið 1987 ásamt tveimur félögum sínum úr Hafnarfirði þegar þeir voru aðeins 26 ára gamlir. Fyrirtækið hefur síðan vaxið og dafnað og er í dag ein af stærstu matvöruheildsölum landsins og eru mörg vörumerki fyrirtækisins landsmönnum að góðu kunn. Eignarhaldið hefur síðan þá tekið nokkrum breytingum og starfar Magnús í dag sem forstjóri Innnes auk þess sem hann var nýverið kosinn formaður Félags atvinnurekenda.

Segja má að starfsemin standi á ákveðnum tímamótum um þessar mundir. Starfsfólk Innnes fagnaði á dögunum 30 ár afmæli fyrirtækisins sem mun svo á komandi misserum flytja í nýtt húsnæði við Korngarða þar sem öll starfsemi þess verður sameinuð undir einu þaki.

Magnús segir smásölumarkaðinn hafa tekið miklum breytingum að undanförnu þar sem vel upplýstur neytandinn krefjist sífellt meiri hraða og ferskleika. Eins hefur íslenskur heildsölumarkaður tekið miklum breytingum, samþjöppun hefur orðið á markaðnum og samkeppnin harðnað. Þá segir hann íslenska verslun ekki hafa notið sannmælis og bendir á að launaskrið og gengi íslensku krónunnar vegi þungt hjá fjölda íslenskra fyrirtækja.

Úr 10 milljónum í 10 milljarða

„Ég er giftur Erlu Dís Ólafsdóttur, við erum búin að vera gift í 36 ár og vera saman í 40 ár. Við eigum svo 4 börn og 3 barnabörn og búum í Hafnarfirði. Ég lærði upphaflega húsasmíði hjá föður mínum sem rak trésmíðafyrirtækið Trévirki í Reykjavík og það varð síðar úr að ég fór að selja handverkfæri fyrir iðnaðarmenn. Ég hafði alltaf áhuga á sölumennsku og öllu því sem snýr að verslun og fann fljótt að trésmíðin var ekki alveg það sem mig langaði að gera. Eftir að hafa starfað í þrjú ár í heildverslun þá tókum við þrír 26 ára Hafnfirðingar okkur síðan til fyrir 30 árum síðan og stofnuðum heildverslunina Innnes. Við héldum einmitt upp á tímamótin með starfsfólkinu okkar síðastliðinn maí í Glasgow, sem var mjög ánægjulegt,“ rifjar Magnús upp.

Magnús hefur allar allar götur síð- an starfað hjá fyrirtækinu en er þó ekki lengur einn af eigendum þess. „Einn félagi okkar sem stofnaði þetta með okkur, Ólafur Björnsson, er í dag eini eigandi Innnes og ég rek fyrirtækið fyrir hann. Alveg frá því að við stofnuðum félagið þá hefur maður unnið við allt það sem til fellur innan þess. Í fyrstu var sölumennskan aðalstarfið en svo bættust innkaupin við og síðan fórum við félagarnir í auknum mæli að huga að markaðssetningarmálum.

Fyrsta vörumerkið sem við fluttum inn og kynntum af einhverjum þunga voru Hunts-vörurnar og hafa þær verið eitt af flaggskipum okkar allar götur síðan. Eitt leiddi svo af öðru og eftir því sem fyrirtækið stækkaði breyttust störfin og hvert svið og starf varð sérhæfðara. Einu sinni var maður með puttann í öllu en það hefur breyst, í dag er ég að reka fyrirtækið og hef verið forstjóri hér í fjögur og hálft ár. Þetta er eins og litla barnið manns og það var sérstaklega gaman að halda upp á 30 ára afmælið og sýna vöxtinn fyrir starfsfólkinu sínu. Fyrsta árið eftir að við tókum til starfa, 1988, var veltan 10 milljónir króna en í ár gerum við ráð fyrir að veltan verði í kringum tíu milljarðar.“

Viðtalið við Magnús Óla má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.