Frönsk lögregluyfirvöld framkvæmdu í dag húsleit á skrifstofum tæknirisans Google í París. Í tilkynningu frá yfirvöldum segir að húsleitin sé partur af rannsókn á skattsvikum og peningaþvætti.

Húsleitin er ekki einsdæmi en fyrirtækið, ásamt öðrum alþjóðlegum tæknifyrirtækjum, hefur ítrekað lent í vandræðum með franska löggjöf útaf flóknum skattagreiðslum. Markmið rannsóknarinnar er að meta hvort dótturfélagið Google Ireland sé raunverulega með aðsetur í Frakklandi og beri því að borga skatta í landinu í samræmi við það eða hvort félagið hafi brotið gegn löggjöf í landinu þegar það taldi ekki fram eignir gagnvart yfirvöldum.

Google og önnur bandarísk tæknifyrirtæki staðsetja að jafnaði evrópsk dótturfyrirtæki sín á Írlandi eða öðrum lágskattasvæðum eins og Lúxemborg með það fyrir augum að geta stundað viðskipti þvert á álfuna en lágmarka þannig um leið opinber útgjöld sín. Evrópskir löggjafar eru nú í auknu mæli að þrýsta á fyrirtækin að borga skatta í þeirri lögsögu þar sem viðskiptin fara fram.