Már Guðmundsson seðlabankastjóri telur að húsleit gjaldeyriseftirlits Seðlabankans og sérstaks saksóknara hjá Samherja í mars árið 2012 vegna rannsóknar á meintum bortum á gjaldeyrislögum hafi haft fælingarmátt. Þetta kemur fram í bréfi Más til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í kjölfar greinargerðar bankaráðs Seðlabankans um gjaldeyriseftirlit bankans og Samherjamálið.

„Þetta mátti t.d. glögglega sjá eftir húsleitina hjá Samherja þó svo ekki hafi verið hugsað út í það fyrirfram, enda ekki lögmætt sjónarmið í þessu sambandi. Það að það tókst að stöðva streymi aflandskróna á álandsmarkað, bæta virkni skilaskyldu og senda skýr skilaboð um að Seðlabankanum var alvara með því að framfylgja höftunum bjó í haginn fyrir hið árangursríka uppgjör við erlenda kröfuhafa,“ segir Már.

Már segir að ekki megi ráða af gögnum Samherjamálsins að stjórnsýslu Seðlabankans hafi verið ábótavant eða málatilbúnaður gjaldeyriseftirlitsins gangavart Samherja hafi verið tilhæfulaus. Málinu lauk fyrir dómstólum í nóvember í fyrra, ríflega sex árum ftir að húsleitirnar , þegar Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Seðlabankanum hafi verið óheimilt að sekta Samherja vegna meintra brota á gjaldeyrislögum. Samherji hefur boðað að höfðað verði skaðabótamál vegna rannsóknarinnar.

Þrenns konar lærdómur

Már telur að þrenns konar lærdóma megi draga af reynslunni af gjaldeyrishöftum. Í fyrsta lagi þurfi að vanda betur til löggjafar.  „Það þarf að tryggja það eins og kostur er að ef talið er nauðsynlegt til skemmri eða lengri tíma að setja í lög ákvæði sem hamla viðskiptafrelsi einstaklinga og fyrirtækja með tilvísun til almannahagsmuna að það sé tryggur lagagrunnur fyrir eftirliti, rannsóknum, refsikenndum viðurlögum, þvingunarúrræðum og refsingum. Ella er hætt við að það sé gróflega verið að mismuna borgurunum þar sem þeir hagnast sem fara ekki eftir reglunum á kostnað þeirra sem gera það sjálfviljugir. Hagnaður af sumum brotum á gjaldeyrislögum getur á tímum fjármagnshafta verið gífurlegur. Hann fellur ekki af himnum ofan. Hann er á kostnað hinna sem annað hvort ekki vilja eða eru ekki í aðstöðu til að fremja slík brot. Kostnaður þeirra birtist í lægra gengi gjaldmiðilsins og verri lífskjörum,“ segir Már. Þetta skilyrði hafi ekki verið nægilega uppfyllt í þeim laga- og regluramma sem settur var í kringum fjármagnshöftin í upphafi.

Í öðru lagi þyrfti að veita meiri sveigjanleika til úrlausnar mála. Már telur að auðvelda ætti gjaldeyriseftirliti að leiðbeina, leysa mál með sátt og því að vinda ofan af brotum þar sem því verður við komið í stað sakfellinga og refsinga. „Þannig hefur mér virst að samkeppnislöggjöf sé sveigjanlegri hvað þetta varðar en gjaldeyrislög og sama má segja um framkvæmd víða á erlendum vettvangi þar sem jafnvel risastór brot á fjármálamarkaði enda með sátt um greiðslu hárra sekta og 9 breytt verklag,“ segir Már.

Í þriðja lagi þurfi að huga að fyrirkomulagi rannsókna á brotum á gjaldeyrislögum. Núverandi fyrirkomulag gangi ekki upp og heldur ekki fyrra fyrirkomulag hjá Fjármálaeftirlitinu. Það þurfi að komast til botns í þessu við endurskoðun laga um Seðlabanka Ísland og sameiningu við Fjármálaeftirlitið. Óheppilegt sé að rannsóknir vegna brota á gjaldeyrislögum heyri beint undir Seðlabankastjóra. „Það þarf fjarlægð til að koma í veg fyrir að mál séu persónugerð honum til að skapa stöðu sem málsaðilar hafa yfirleitt ekki gagnvart sérhæfðari eftirlitsaðilum. Heppilegast er að það sé fjölskipuð stjórn eða nefnd sem taki lokaákvarðanir varðandi kærur eða sektir. Þá þarf að fara yfir hlutverk bankaráðs og tryggja að það blandi sér ekki í afgreiðslu einstakra mála,“ segir Már.

Fundað 40 sinnum um Samherja

Þá hafi erindi bankaráðsins í tengslum við gjaldeyriseftirlit skapað óhemju vinnu fyrir starfsfólk Seðlabankans við að gera greinargerðir og kynningar fyrir bankaráðið varðandi einstök mál og starfsemina almennt. „Frá því að rannsóknir voru fluttar til Seðlabankans frá Fjármálaeftirlitinu hafa málefni gjaldeyriseftirlitsins verið 39 sinnum á dagskrá bankaráðs sem er um þriðjungur funda, og málefni Samherja 40 sinnum síðan 2012 sem er um helmingur funda. Hluti af þessari umræðu laut að almennari málum og telst til eðlilegs eftirlits bankaráðsins. En umtalsverður hluti varðar einstök mál þar sem í sumum tilfellum er verið að krefja bankaráðið um að blanda sér í afgreiðslu þeirra,“ segir Már.