*

sunnudagur, 19. maí 2019
Innlent 12. febrúar 2018 18:10

Húsnæði vantar um allt land

Íbúðalánasjóður vill að gripið verði til aðgerða vegna húsnæðisskorts víðs vegar um landið.

Ingvar Haraldsson
Sigrún Ásta Magnúsdóttir deildarstjóri húsnæðisáætlana hjá Íbúðalánasjóði.

Við funduðum með yfir fimmtíu sveitarfélögum á síðasta ári og það hefur komið skýrt fram að það er mikill skortur á íbúðarhúsnæði um allt land,“ segir Sigrún Ásta Magnúsdóttir, deildarstjóri húsnæðis-áætlana hjá Íbúðalánasjóði. Íbúðalánasjóður vinnur nú tillögur til að bregðast við skorti á íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni sem skila verður til Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og húsnæðisráðherra. Þar verður meðal annars skoðað verður hvort að- laga megi stofnframlög á hverju svæði fyrir sig að sögn Sigrúnar.

Horfa til Norðurlandanna

Í yfirlýsingu sem stjórn Íbúðalánasjóðs sendi frá sér í síðustu viku kom fram að meðal annars ætti að horfa til reynslu Husbanken í Noregi og ARA í Finnlandi þar sem stofnanir, sveitarfélög og framkvæmdaaðilar vinni að sértækum lausnum fyrir einstök sveitarfélög. „Það sem við höfum kallað markaðsbrest er þar sem byggingarkostnaður er mun hærri heldur en markaðsverð fasteigna á svæðinu. Fólk er því ekki tilbúið að leggja í nýbyggingar svo að mjög lítið er byggt en þörfin er samt sem áður til staðar,“ segir Sigrún. Slíkt eigi við nokkuð víða um land.

Fari að hamla fyrirtækjum á landsbyggðinni

„Okkar tilfinning er sú að sama hvar við komum er skortur á íbúðarhúsnæði. Við höfum heyrt það á fleiri en einum stað og fleiri en tveimur að þetta sé hreinlega farið að hamla atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Það eru öflug fyrirtæki sem eru farin að horfa fram á að missa starfsfólk,“ segir hún. Þá er húsnæði það sem til sé í sveitarfélögum oft illa farið og henti illa þörfum íbúa að mati Íbúðarlánasjóðs. Ýmsir þættir valdi því að lítið er byggt. „Einn þáttur í þessari þróun er skortur á lánsfjármagni á ásættanlegum kjörum,“ bendir Sigrún á.

Vinna við húsnæðisáætlanir gengur vel

Íbúðalánasjóður hefur frá byrjun síðasta árs aðstoðað sveitarfélög við gerð húsnæðisáætlana.  „Þetta er í raun hugsað til að reyna að fá raunhæfari mynd af því hvaða framboð sé væntanlegt og ákveða svæði, sett fram á sambærilegan hátt,” segir Sigrún.

„Sveitarfélögin hafa tekið mjög vel í þetta og séð hag í að þetta verði gert,” segir hún.

Sigrún telur gerð samræmdra húsnæðisáætlana hafa verið orðna vel tímabæra. „Nú er hagdeildin okkar búin að gefa út upplýsingar um uppsafnaða þörf á íbúðarhúsnæði,“ bendir Sigrún á. Í þeirri greiningu var áætlað að byggja þyrfti 17.000 íbúðir á árunum 2017-2019 til að vinna upp uppsafnaðan skort og þörf í samræmi við  vænta fólksfjölgun hér á land.

„Þessi vinna gæti hjálpað okkur að reyna að átta okkur á því hvort við séum að komast nálægt því að mæta þessari þörf,“ bendir Sigrún á.

„Það eru fimm sveitarfélög búin að birta húsnæðisáætlanir og þó nokkur á lokametrunum og munu væntanlega birta sínar ætlanir á næstunni,“ segir Sigrún. Sveitarfélögin sem eru búin að birta húsnæðisáætlanir eru Reykjavík, Sandgerði, Garður, Hrunamannahreppur og Rangárþing ytra. „Þetta er tiltölulega dreift um landið sem er mjög ánægjulegt.“

Nánar er fjallað um málið í Fasteignablaðinu, sérblaði Viðskitpablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim