Fasteignaverð á Benidorm hefur hækkað um 10,5% á síðustu tólf mánuðum, og viðskipti með fasteignir á þessu þekkta ferðamannasvæði Spánar hefur meira en tvöfaldast frá árinu 2018.

Nemur verðhækkunin 26% frá árinu 2015, en þau eru þó enn 23,7% lægri en þegar þau náðu hámarki sínu árið 2006. Fasteignabólan á Spáni sprakk hins vegar árið 2007, en sama ár hafði Intempo íbúðaturninn verið kláraður.

Hann stóð hins vegar tómur og þannig sem táknmynd um fasteignabóluna og hrun hennar, þar til hann var seldur árið 2017 til fyrirtækisins SVPGlobal fyrir 60 milljónir evra, eða sem samsvarar 8,2 milljörðum króna á núverandi gengi.

Er áætlað að allar 256 íbúðirnar í turninum, sem líkist helst koparslegnum buxum, enda í tveimur hlutum sem tengdir eru efst, verði tilbúnar innan árs. Íbúðirnar í turninum verða seldar á verðbilinu 185 þúsund evrur fyrir eins herbergja íbúðir á lægri hæðum upp í 1,3 milljónir efra á efstu hæðunum. Það samsvarar frá 25 milljónum íslenskra króna upp í 177 milljónir íslenskra króna.

Janis Fedorovskis, framkvæmdastjóri Engels & Völkers fasteignastofunnar á Benidorm segir að nýjar framkvæmdir hafi ekki hafist á svæðinu fyrr en á síðustu tveim árum til 18 mánuðum. „Fyrir þremur eða fjórum árum síðan var markaðurinn dauður,“ hefur FT eftir honum.

Í dag eru hins vegar þegar búið að selja allar íbúðir um leið og framkvæmdum er lokið segir hann. Að mati fyrirtækisins eru um 65% kaupenda á svæðinu erlendir ríkisborgarar, en um helmingurinn kemur frá Niðurlöndunum, og hinn helmingurinn frá Þýskalandi, Sviss, Rússlandi og Skandinavíu. 80% seljenda eru hins vegar spænskir.

Intempo turninn í Benidorm á Spáni
Intempo turninn í Benidorm á Spáni
© epa (epa)

Frá byggingu Intempo turnsins.