Í fjórum póstnúmerum af sex í Reykjavík lækkaði fasteignaverð í fjölbýli á fjórða fjórðungi síðasta árs að því er Morgunblaðið greinir frá, en um er að ræða tölur sem Þjóðskrá vann.

Ef húsnæðisverðinu er skipt í tvennt fyrir hvert póstnúmer eftir því hvort um nýbyggingar er að ræða eða ekki, þá lækkaði verðið í 9 tilvikum af tólf. Um er að ræða póstnúmer 101, 105, 107, 109, 111 og 112.

Hlutfallslega var mesta lækkunin í miðborginni, póstnúmeri 101, þar sem hún var 3,3%, eða 18 þúsund krónur á fermetra, en án nýbygginga nam lækkunin 2,5%, eða 13 þúsund krónur á fermetra. Meðalverðið hækkaði þó á milli fjórða fjórðungs 2016 og 2017 í póstnúmerunum sex, nam hækkunin frá um 7,7% upp í 18,5%.