Friðrik Þór Snorrason tók við sem forstjóri Reiknistofu bankanna árið 2011 en fyrir þann tíma hafði hann starfað hjá Nýherja. Friðrik er með BA-próf í alþjóðasamskiptum frá University of Wisconsin í Bandaríkjunum og lauk meistaraprófi í sama fagi frá London School of Economics. Þrátt fyrir að hafa ekki aflað sér formlegrar menntunar á sviði tæknigeirans hefur hann lengi haft áhuga á því sviði og sótt sér tækniþekkingu með margvíslegum hætti.

„Ástæðan fyrir því að ég fór í tæknigeirann var sú að þegar ég fór í nám í Bandaríkjunum var ég í starfsnámi hjá Department of Industry hjá Wisconsin fylki og þeir báðu mig um að rannsaka, í árslok 1993, hvað þetta internet væri,“ segir Friðrik. „Ég var fenginn til að skrifa einhverja grein í einhverju blaði sem ég vona að enginn finni. Aðeins tveimur mánuðum áður hafði fyrsti netvafrinn komið út, sem hét Mosaic. Ég var bara að átta mig á þessu í gær, þá vissi ég ekki að ég hefði komið svona snemma að þessu. Þetta sat svo í mér en það var ekki fyrr en ég fór að vinna hjá Strax sem ég komst aftur í tæknigeirann.“

„Það sem mér finnst skemmtilegast við þann geira eru þessar stöðugu breytingar og möguleikinn á því að skapa. Í tilfelli RB er það þessi möguleiki ekki bara að breyta og skapa heldur líka að hafa áhrif út fyrir ramma fyrirtækisins. Þegar við horfum á hagræðingu í tæknirekstri fjármálafyrirtækja þá reynum við hjá RB að gera þetta áþreifanlegra fyrir okkur sjálf. Sex milljarðar þýða t.d. allan niðurskurðinn sem kostaði blóð, svita og tár hjá Landspítalanum eftir hrun. Einhvern tímann var þetta tveir þriðju af fjárframlagi ríkisins til HÍ. Við erum ekki bara að kóða heldur erum við að reyna að láta gott af okkur leiða. Þannig nálgumst við verkefnin.“

Nánar er rætt við Friðrik í viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.