„Þarna eru sparisjóðirnir að vinna saman. Þeir hafa í gegnum árin stutt hvern annan til að koma í veg fyrir að þeir lendi í vandræðum,“ segir Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða. Hann er prókúruhafi tryggingasjóðsins, sem hefur lagt Sparisjóði Svarfdæla til samtals 80 milljónir króna; 70 milljónir króna í formi víkjandi láns og 10 milljónir króna í stofnfé.

Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri
Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri
© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)

Ríkið á 90% hlut í Sparisjóði Svarfdæla í gegnum Bankasýsluna, Eignasafn Seðlabankans fer með 7% og eiga 50 stofnfjárhluthafar sparisjóðsins það sem upp á vantar. Ekki liggur fyrir hversu stóran hlut Tryggingasjóðurinn eignast. Það mun liggja fyrir eftir stofnfjárfund þar sem viðskipti sjóðsins verða tekin fyrir. Ekki er þó gert ráð fyrir því að hlutur ríkisins í sparisjóðnum breytist mikið.

Sparisjóðirnir stofnuðu sjóðinn síðla árs 1985 með það fyrir augum að tryggja hagsmuni viðskiptamannna sparisjóðanna og og fjárhagsleg öryggi sparisjóða og full skil á innlánum við endurskipulagningu og slit sparisjóða. Hann er ólíkur Tryggingasjóði innstæðueigenda að því leyti að sá síðarnefndi greiðir innstæðueigendum ákveðið hlutfall innstæðna ef banki fer í þrot og getur ekki staðið við skuldbindingar sínar. Tryggingasjóður sparisjóðanna tók formlega til starfa árið 1986.

Guðjón segir tryggingasjóðinn hafa látið til sín taka í gegnum árin þegar sparisjóðirnir hafi þurft á að halda. Hann bendir á að sjóðurinn hafi ekki reynst nógu sterkur til að grípa inn í gang mála í hruninu haustið 2008 og hafi lítið gert eftir það fyrr en nú. Enginn framkvæmdastjóri hefur verið yfir sjóðnum frá bankahruni.

Guðjón segir tryggingasjóðinn standa ágætlega þótt fjárhagsleg staða hans sé ekki mikil þar sem ekki hafi verið borgað inn í hann í nokkur ár. Eignir sjóðsins eru að mestu bundnar í lánum og stofné sparisjóða.