Hvalasafnið á Húsavík, sem er sjálfseignarstofnun sem rekur fræðslumiðstöð og safn um hvali, lífríki þeirra hér við land og sögu hvalveiða og hvalaskoðunar, hagnaðist um 10,7 milljónir króna árið 2017 samanborið við rúmlega 8 milljónir árið áður. Þetta kemur fram í ársreikningi stofnunarinnar.

Gestir safnsins á síðasta ári voru ríflega 34 þúsund. Rekstrartekjur safnsins námu 75,3 milljónir samanborið við 78,5 milljónir árið á undan, en stærsti hluti tekna er sala inngangseyris og minjagripasala. Rekstrargjöld námu 62,6 milljónum en árið 2016 voru þau tæplega 68 milljónir. Rekstrarhagnaður Hvalasafnsins nam því 12,7 milljónum á síðasta ári en var 10,5 milljónir árið á undan.

Eignir Hvalasafnsins námu tæplega 124 milljónum í árslok og var eigið fé 89,8 milljónir. Eigið fé safnsins hefur aukist á síðustu árum samhliða góðri afkomu og hefur safnið því getað fjárfest umtalsvert í nýjum sýningum og sinnt nauðsynlegu viðhaldi.