Sjónlag auglæknastöð kláraði í lok síðustu viku síðustu augasteinsaðgerðina sem samið var um í sérstöku biðlistaátaki Velferðarráðuneytisins árið 2016.

Í átakinu var lagt aukið fé til Landspítala-Háskólasjúkrahúss og Sjúkrahússins á Akureyri ásamt einkareknu augnlæknastöðinni Sjónlags til að framkvæma fleiri aðgerðir en áður til að reyna að vinna upp biðlista sem farnir voru að nema um þremur árum.

Bættu við starfsfólki en engum aukafjárfestingum

Kristinn Ólafsson framkvæmdastjóri Sjónlags segir að fyrirtækið hafi venjulega framkvæmt 400 aðgerðir á ári, en með auknum kröfum um lífsgæði og hækkandi aldurssamsetningu þjóðarinnar verði alltaf fleiri og fleiri sem þurfi að fara í svona aðgerðir.

„Við þurftum að bæta við starfsfólki og fjölga aðgerðardögum, en við þurftum ekki að fjárfesta í tækjum eða búnaði eða húsnæði eða neinu, heldur var þetta bara betri nýting á því sem við erum með núþegar. Þannig að þetta er eitthvað sem við gátum bætt inn í okkar rekstur,“ segir Kristinn.

„Þetta er mjög heppilegt fyrirkomulag, því svona tækjabúnaður og það að setja upp skurðstofur og annað er mjög dýrt. Því er það mjög gott að geta samið við fyrirtæki eins og okkur um fast verð á aðgerðina. Þannig kemur ríkinu í raun ekkert við hvað við vinnum langa daga eða hvort við vinnum á laugardegi eða annað.“

Spítalinn þurfti að greiða yfirvinnu

Kristinn segir að þeir hafi almennt náð að jafna nýtinguna vel út og ekki þurft að vinna nema nokkrar laugardaga undir lok ársins.

„Verkefnið kom frekar seint inn á árinu, en ég veit til dæmis að á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi var fólk til dæmis að vinna á laugardögum. Þá þurfti hann væntanlega að greiða fólki yfirvinnu.“

Kostnaðurinn gegnsærri hjá einkaaðilum

Kristinn segir að þeir hjá Sjónlagi hafi ákveðið að bjóða algert grunnverð í þetta öfugt við hugmyndir sumra að þetta sé allt of hátt verð. Þvert á það sem gildi hjá ríkisspítulunum sé allur kostnaður hjá þeim mun gagnsærri, meðan spítalarnir eigi erfiðara með að átta sig á kostnaðinum við hverja aðgerð.

„Við enduðum á að bjóðast til að gera þetta fyrir 104 þúsund krónur,“ segir Kristinn, sem segir það vera nálægt kostnaðarverði. Kristinn tekur fram að hann vilji ekki vera gagnrýninn á ríkisspítalana.

„Ég held að það sé mjög gott að báðir aðilar séu að vinna að þessu, því þeir veiti hvorum öðrum eðlilegt aðhald og samkeppni þegar kemur að þjónustu og verðum og þess háttar. En þá er gegnsæji lykilatriði þannig að hægt sé að bera saman verð og gæði,“ segir Kristinn og bendir á að þannig sé tryggt að ríkið sé að fá þá þjónustu sem þeir eru að borga fyrir.

„Þetta eru til þess að gera frekar einfaldar aðgerðir, og hef ég trú á því að það séu mikil tækifæri til að taka ýmsan svona rekstur út úr stofnunum og létta af þeim. Við erum til dæmis með öll tæki og tól til að gera svona aðgerðir sem sparar ríkinu bæði fjárfestingar og mannahald.“

Spítulum illa gengið að klára sínar aðgerðir

Kristinn segir kostinn við þetta fyrirkomulag að ríkið viti þá nákvæmlega hvað það sé að fá margar aðgerðir fyrir krónutöluna meðan langan tíma hafi tekið að þróa kostnaðargreiningarkerfið sem verið sé að byggja upp á spítulunum.

„Stefnan er að í framtíðinni verði hægt að greina öll verk, en inn í föstum fjárlögum þess á spítalinn að skila ákveðnum mörgum aðgerðum, en á undanförnum árum hefur honum illa gengið að klára það,“ segir Kristinn sem játar því að ríkið fái samt sem áður fjármagnið sem úthlutað hafi verið fyrir aðgerðirnar.

Fá borgað fyrir framkvæmdar aðgerðir

„Allt sem við gerum í gegnum samninginn við Sjúkratryggingar Íslands, fáum við bara borgað fyrir það sem við klárum, ekkert meira. Ég held það sé miklu betri kostur, að þú framkvæmir aðgerðir og fáir borgað fyrir það sem þú skilar, þannig sé meira aðhald á öllum.

Þetta er samt ekki spurning um annað hvort ríkisrekstur eða einkarekstur, því eins og í löndunum í kringum okkur, til dæmis í Svíþjóð og Noregi, þá er kannski 40-50% augasteinsaðgerðanna verið unnar á ríkisspítulum, en restin af einkaaðilum.“