Rússnesk stjórnvöld réðust í eina umfangsmestu einkavæðingu í sögu þjóðarinnar fyrir rúmum mánuði, þegar 19,5% hlutur í Rosneft olíufélaginu var seldur. Greiddir voru um 10,2 milljarðar evra fyrir hlutinn, en ekki er hægt að afla sér nákvæmra upplýsinga um þá sem fjárfestu.

Það eina sem er vitað, er að félag sem skráð er í Singapúr hafi keypt hlutinn. Fulltrúar Rosneft hafa sagt að þetta umrædda félag sé stofnað af Katar og svissneska félaginu Glencore. Rússnesk yfirvöld hafa svo sagt að salan sýni að Rússland njóti trausts á alþjóðavísu.

Ekki allt sem sýnist

Blaðamenn Reuters fréttaveiturnar hafa aftur á móti kafað ofan í söluna og bendir allt til þess að Glencore hafi einungis lagt um 300 milljónir evra inn í félagið. Sú upphæð er innan við 3% af kaupverðinu á umræddum 19,5% hlut.

Auk þess sýna gögnin að fyrirtækið í Singapúr, sé í raun í eigu annars fyrirtækis sem skráð er á Caymaneyjum. Ekki er hægt að afla sér upplýsinga um eignarhald þess fyrirtækis, sökum staðsetningar.

Engar upplýsingar fáanlegar

Fyrirtækið í Singapúr fékk 5,2 milljarða evra lán frá ítalska bankanum Intesa SanPaolo. Katar og Glencore lögðu svo samtals til 2,8 milljarða evra í stofnfé og vantar því 2,2 milljarða evra til þessð að stemma tölurnar af við kaupverðið.

Glencore, Katar, Rosneft og Kremlin vildu lítið tjá sig um málið og því fengu blaðamenn Reuters engin svör við spurningum sínum. Glencore hélt því aftur á móti fram að rússneskir bankar hafi lánað fyrir viðskiptunum.

Ef kafað er enn dýpra, virðist þó allt benda til þess að kaupin hafi fyrst verið fjármögnuð af fullu af rússneska ríkisbankanum VTB. Bankinn vill þó ekki tjá sig um meinta lánveitingu.