Hleðsla rafbíla á hleðslustöðvum Orku náttúrunnar, hefur verið ókeypis síðan fyrstu stöðinni var komið upp árið 2014. Þann 1. febrúar næstkomandi er stefnt að því að hefja gjaldtöku, og munu rafbílaeigendur þá þurfa að greiða 39 krónur fyrir hverja mínútu í hleðslu í stöðvunum að því er Fréttablaðið greinir frá.

ON er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur sem aftur er í eigu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, en fyrirtækið hefur verið að setja upp hleðslustöðvar út um allt land. Bjarni Már Júlíusson framkvæmdastjóri ON segir rafbílaeigendur, sem hafa farið úr því að vera um 100 talsins árið 2014 í á fimmta þúsund í dag, geta skrá sig fyrir auðkennislyklum og síðan einungis greitt fyrir þær mínútur sem þeir nota.

„Algengast er að hleðslutíminn sé um 10-12 mínútur, en það er alltaf ódýrast að hlaða heima hjá sér,“ segir Bjarni Már, en hann segir algengan hleðslutíma í dag vera um 20 mínútur.

„Samkvæmt Fortum, samstarfsaðilum okkar í Noregi, styttist hleðslutíminn hjá fólki þegar gjaldtaka hófst þar.“ Noregur, sem er rafbílavæddasta land heims, hefur um 100 þúsund rafbíla, en þar er algengt mínútuverð 34 krónur.