Greiningardeild Arion banka hefur tekið saman hvað myndi gerast ef Seðlabankinn myndi í dag tilkynna um 200 punkta lækkun stýrivaxta eða úr 5,25% niður í 3,25%. Ítarlega greiningu bankans má lesa hér .

Fagnaðaróp úr Kauphöllinni

Líklegt er að áhrif vaxtalækkunnar myndu fyrst koma fram í Kauphöll Íslands og að fagnaðarhóp myndu heyrast, að minnsta kosti í fyrstu. Hlutabréfaverð myndi hækka talsvert þar sem fjármögnunarkostnaður fyrirtækja lækkar og þar á meðal ávöxtunarkrafa eigin fjár. Lækkun stýrivaxta myndi jafnframt hafa þau áhrif á skuldabréfamarkað að ávöxtunarkrafa stuttra skuldabréfa og víxla myndi lækka í kringum 200 punkta.

Hins vegar er líklegt að áhrifin myndi fara dvínandi eftir því sem líftími bréfanna lengist, bendir greiningardeildin á. „Við teljum því að lækkun stýrivaxta myndi lækka ávöxtunarkröfu lengri bréfa og þar með auka verðmæti þeirra, líkt og gerðist í ágúst þegar Seðlabankinn lækkaði nokkuð óvænt vexti um 50 punkta.

Hér er rétt að nefna að á móti lækka fjármagnstekjur þeirra sem eiga óbundinn sparnað eða sparnað sem bundinn er til skemmri tíma svo sem á bankareikningum, í peningamarkaðssjóðum eða víxlum. Það á ekki síst við um eldra fólk sem þarf að geta gengið á sinn höfuðstól í stað þess að binda hann til lengri tíma,“ að mati greiningardeildar Arion banka.

Hækkun eigna- og húsnæðisverðs

Greiningardeildin bendir jafnframt á að með lækkun stýrivaxta lækkar fjármögnunarkostnaður heimila. Fyrst um sinn myndu vextir á fasteignalánum sem bera breytilega vexti lækka. Einnig ætti stýrivaxtalækkun að hafa áhrif á fjármögnunarkjör bankanna og þá gætu þeir boðið lægri vextir sem eru fastir til lengri tíma.

„Með ódýrari fjármögnun skapast aukið svigrúm til skuldsetningar sem auðveldar kaup og endurfjármögnun lána sem þrýstir húsnæðisverði upp á við. Þetta getur gerst hratt líkt og þegar fjármögnun íbúðarhúsnæðis varð mun auðveldari árið 2004 og húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 40% á innan við ári. Líklegt er að heildarniðurstaðan verði sú að húsnæðisverð hækki eftir vaxtalækkun þar til húsnæðiskostnaður í hlutfalli við ráðstöfunartekjur verði svipaður og áður,“ segir í greiningunni.

Einnig myndu þeir sem eiga íbúðarhúsnæði hagnast. Á hinn bóginn væru þeir sem ætluðu að koma inn á húsnæðismarkaðinn eftir verðhækkunina eða þeir sem þurfa að stækka við sig, að vissu leyti í bágri stöðu. „Til lengri tíma myndu þó áhrifin vera önnur. Lækkun vaxta hvetur til örari íbúðafjárfestingar sem myndi með tíð og tíma halda aftur af hækkun húsnæðisverðs. Einn helsti vandi húsnæðismarkaðarins í dag er að framboð eykst ekki í takt við eftirspurn svo stýrivaxtalækkun gæti hjálpað til við að leysa það, en aðlögunin gæti orðið sveiflukennd,“ er einnig tekið fram.

Hækkun eignaverðs gæti haft þau áhrif að heimilin hafi aukið svigrúm til neyslu, allaveganna tímabundið. Lækkunin hefði einnig þau áhrif að hvati til sparnaðar myndi minnka og auka neyslu. „Vaxtalækkun hefur einnig bein áhrif á neyslu og ýtir það undir skuldsetta neyslu. Það er meira freistandi að kaupa 5 milljóna króna bíl með láni á 8% vöxtum heldur en 10% vöxtum líkt og algengt er nú eða að taka yfirdrátt til ef vextir lækka,“ er tekið fram í greiningunni.

Jákvæð áhrif á fjárfestingu

Með vaxtalækkun myndi fjármagn verða ódýrara og því eykst hvatinn til fjárfestingar og ávöxtunarkrafa fjárfestingarkosta lækka. „Því myndi fjárfesting að líkindum aukast. Sú aukning myndi sem fyrr segir eiga sér stað í gegnum íbúðafjárfestingu, en atvinnuvegafjárfesting myndi líklega einnig aukast,“ er tekið fram í greiningunni. Hins vegar myndi lækkun vaxta draga úr innflæði erlends fjármagns að óbreyttu. Þó telur greiningardeildin að fyrri áhrifin séu hinum yfirsterkari svo að fjárfesting myndi aukast í heildina.

Bankinn telur jafnframt líkur á að hægja myndi á styrkingu krónunnar. „Í fyrsta lagi myndi örvun innlendrar fjárfestingar auka innflutning sem rýrir viðskiptajöfnuð. Í öðru lagi myndi skapast aukinn hvati fyrir lífeyrissjóði og aðra innlenda fjárfesta til að fara erlendis en að sama skapi draga úr hvata fyrir erlenda aðila til að fjárfesta hér á landi þar sem vaxtamunur minnkar. Þannig myndi hreint gjaldeyrisinnflæði minnka eða snúast við í útflæði. Þá má að sama skapi nefna að raungengi krónunnar er nú þegar orðið sögulega hátt sem eykur líkurnar á að gengið gefi eitthvað eftir, þó að erfitt sé að fullyrða um það,“ segir í greiningunni.

Ekki hægt að lækka bara vexti til að verða ríkari

Að mati Arion banka þá er það ekki svo einfalt að hægt sé að lækka vexti til að verða ríkari. „Til lengri tíma ræðst hagvöxtur af framleiðnivexti og fólksfjölgun. Stýrivextir hafa til lengri tíma mjög takmörkuð áhrif á hvort tveggja svo því má spyrja hvort hagkerfið geti farið á enn meiri siglingu þannig að það sé sjálfbært til lengri tíma? Að öllum líkindum þyrfti eitthvað undan að láta. Nær öruggt er að aukin örvun hagkerfisins á þessum stað hagsveiflunnar brjótist út í enn meiri framleiðsluspennu með aukinni neyslu og fjárfestingu, sem grefur undan stöðugleika, og/eða því að verðbólga taki á flug vegna aukins eftirspurnarþrýstings. Að okkar mati er óhjákvæmilegt að lækkun stýrivaxta hafi slík áhrif, þó að hugsanlegt sé að önnur áhrif gætu vegið á móti,“ kemur fram í greiningu Arion banka.

Hér er svo hægt að lesa nánar um það hvort að rök fyrir vaxtalækkun haldi að mati Greiningardeildar Arion banka.