Ef fyrirtæki vilja vera framúrskarandi þá er ráðlegast fyrir þau að hafa forstjóra sem er karlmaður á bilinu 50-60 ára, heitir Guðmundur og býr í Garðabæ. Það má í hið minnsta lesa úr tölfræði yfir stjórnendur þeirra fyrirtækja sem eru á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki þetta árið.

Auðvitað eru stjórnendur framúrskarandi fyrirtækja mismunandi enda eru fyrirtækin þar í fjölbreyttum atvinnugeirum. Séu þeir hins vegar bornir saman við önnur fyrirtæki á landinu sést að nokkuð stærra hlutfall þeirra er á aldinum 50-60 ára, eða 42% stjórnenda framúrskarandi fyrirtækja samanborið við 31% allra fyrirtækja á landinu.

Algengasta nafn stjórnenda framúrskarandi fyrirtækja er Guðmundur en 28 stjórnendur á listanum heita því fornafni. Algengasta nafn stjórnenda allra íslenskra fyrirtækja er hins vegar Jón en 665 íslenskir framkvæmdastjórar heita því nafni. Ef litið er eingöngu til kvenkyns stjórnenda þá er Guðrún algengasta nafnið bæði á listanum yfir framúrskarandi fyrirtæki og heilt yfir.

Þegar litið er til kynjahlutfalla sést að aðeins 12,3% stjórnenda framúrskarandi fyrirtækja eru konur og 81,7% karlar. Þetta er svipað hlutfall og í fyrra þegar 87,2% stjórnenda framúrskarandi fyrirtækja voru karlmenn og 12,8% konur. Þetta er töluvert minna hlutfall en hjá öllum fyrirtækjum í landinu þar sem 22% stjórnenda eru konur og 78% karlar.

Efsta fyrirtækið á listanum sem hefur kvenkyns stjórnanda er Stálskip undir stjórn Guðrúnar Lárusdóttur en það fyrirtæki er í fimmta sæti þetta árið. Flestir stjórnendur framúrskarandi fyrirtækja búa í Garðabæ, eða í póstnúmeri 210 nánar tiltekið. Laufásvegur í miðbænum er vinsælasta gatan á meðal stjórnenda framúrskarandi fyrirtækja en þar eru fimm stjórnendur framúrskarandi fyrirtækja. Heilt yfir búa flestir framkvæmdastjórar á landinu í Hraunbæ í Árbænum.

Nánar er fjallað um málið í Framúrskarandi fyrirtækjum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .