Viðskiptablaðið hafði samband við nokkra einstaklinga í mismunandi greinum, spurði hvernig þeim fannst árið og hvað þeir vilja sjá á nýju ári. Hér svarar Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Brandenburg 1.

Hvernig var árið?  Fyrir mig persónulega var árið 2012 viðburðaríkt þar sem að ég stofnaði nýja stofu (Brandenburg) ásamt félögum mínum auk þess sem ég eignaðist dásamlega litla stúlku. Það hefur því verið í nógu að snúast. Reksturinn hefur farið vel af stað og við erum nú orðin 10 manna stofa með spennandi viðskiptavini og nóg af skemmtilegum verkefnum. Heilt yfir held ég að það sé nokkuð góður gangur í auglýsingabransanum.

Hvað var vel gert?  Sem betur fer hafa hlutirnir verið að þokast í rétta átt þótt enn sé mikið verk óunnið hjá landanum. Það má kannski segja að það sé vel gert hjá íslensku þjóðinni að láta ekki deigann síga þrátt fyrir gífurlegt offramboð á heimsendaspám og svartsýnisrausi.

Hvað var slæmt? Niðurrifs- og svartsýnisrausið úr öllum áttum. Það er fullt af fólki að gera spennandi hluti, skapa ný fyrirtæki og atvinnutækifæri. Mér finnst grátlegt ef við virkjum ekki kraftinn og góðu hugmyndirnar sem í okkur búa, eflum sjálfstraust og getum þannig, með bjartsýni að leiðarljósi, nýtt tækifærin sem eru úti um allt. Síðan er ég orðinn svolítið leiður á sjálfskipuðum siðapostulum sem með boðum og bönnum eru að gera líf okkar allra grárra og gleðisnauðara.

Hvað viltu sjá á nýju ári? Mér dettur svo sem ekkert í hug, nema þá helst lægri skatta, frumlegri auglýsingar, sigur hjá íslenska landsliðinu í fótbolta, jákvæðari stjórnmálamenn, betra veður, gamla Cocopuffsið aftur, afnám gjaldeyrishafta, að múffur detti úr tísku, vextir lækki, Katie og Tom nái saman aftur og að það fyrsta sem hrekkur upp úr Lív dóttur minni verði orðið pabbi, en ekki; hvenær fæ ég i-phone?