Áhverju ári koma leiðtogar helstu þjóða, fyrirtækja og stofnana saman í skíðabænum Davos í Sviss. Ráðstefnan, sem ber nafnið World Economic Forum, hefur í raun verið haldin frá árinu 1971 og fer iðulega mikið fyrir henni í fjölmiðlum. Lesendur Viðskiptablaðsins ættu því flestir hverjir að hafa heyrt af þessari ágætu samkomu. En hver er saga þessarar ráðstefnu? Hver er eiginlega tilgangurinn og hverjum er yfirhöfuð boðið?

Upphafið

Árið 1971 smalaði þýski hagfræðingurinn Klaus Schwab 450 leiðtogum úr viðskiptalífinu saman. Viðburðurinn bar nafnið European Management Symposium og var því í raun samdrykkja í svissnesku Ölpunum. Markmið ráðstefnunnar var að hvetja evrópska stjórnendur til þess að bera saman bækur sína við bandaríska stjórnunarhætti og ræða samkeppnismál í síbreytilegri veröld. Þetta voru sannkallaðir umbrotatímar. Kalda stríðið var í fullum gangi, Bandaríkjunum hafði fáeinum árum áður tekist að koma mönnum á tunglið, svo ekki sé minnst á þær breytingar sem áttu eftir að eiga sér stað í peningakerfinu þegar dollarinn fór frá því að vera á gullfæti yfir í það að vera á guðsfæti. Staðsetningin var heldur engin tilviljun, en Schwab fékk innblástur úr bókinni Der Zauberberg, eða Töfrafjallið, eftir Thomas Mann. Auk þess hafði nýtt mannvirki verið reist í bænum, sem hentaði vel undir slíka samkomu.

Tilgangurinn

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að fyrsta ráðstefnan var haldin. Árið 1987 var nafninu svo breytt í World Economic Forum og var stefnt að því að færa út kvíarnar. Í dag hefst ráðstefnan í lok janúar á hverju ári og spannar hún alls fimm daga. Markmiðið er ekki lengur að koma saman evrópskum stjórnendum, heldur er markmiðið að fá leiðtoga heimsins til þess að ræða stór og strembin málefni. Skipuleggjendur hafa til að mynda reynt að nýta vettvanginn til þess að draga úr milliríkjadeilum. Árið 1988 fengust leiðtogar Tyrklands og Grikklands til þess að ræða málin og er talið að það hafi komið í veg fyrir átök. Árið 1992 settust Nelson Mandela og þáverandi forseti Suður-Afríku, F.W. de Klerk, einnig niður og ræddu stóru málin. Vanalega fer þó mest fyrir umræðum um verslun og viðskipti.

Nánar er fjallað um málið í Fundir & ráðstefnur, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .