Stjórnvöld í Frakklandi hyggjast skoða það að lækka skatta á efnafólk strax á næsta ári til þess að laða frumkvöðla og fjárfesta til landsins. Þetta sagði Édouard Philippe, nýr forsætisráðherra Frakklands í viðtali við Financial Times. Ummælin koma í kjölfarið orða Philippe í jómfrúrræðu hans í franska þinginu þar sem hann sagði meðal annars að franskt efnahagslíf hefði dregist aftur úr þeim löndum sem það ber sig saman við.

Í viðtalinu sagði Philippe að hann hygðist gera þinginu grein fyrir tímasetningum skattalækkananna eins fljótt og hægt væri til að veita fyrirtækjum og heimilunum í landinu skýrari sýn á stöðu mála. Samkvæmt tillögum forsætisráðherrans verður skattur á fjárfestingar afnuminn og í staðinn verður 30% flatur fjármagnstekjuskattur kynntur.

Þrátt fyrir loforð Philippe um skattalækkanir eru Frakkar í erfiðri stöðu til þess að lækka skatta. Ríkið hefur skilað halla á fjárlögum síðustu 30 ár og þarf landið að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Evrópusambandinu um að draga úr hallanum. Reglur ESB gera ráð fyrir því að fjárlagahalli megi ekki vera meiri en 3% af VLF.  Þá er hlutfall ríkisútgjalda af vergri landsframleiðslu hæst í Frakklandi af ríkjum Evrópusambandsins eða um 56%. Á sama tíma nema skatttekjur ríkisins 48% af vergri landsframleiðslu.