Íslenska sprota- og tæknifyrirtækið Genki Instruments hafnaði í 2.sæti á Creative Business Cup, heimskeppni skapandi frumkvöðlafyrirtækja. Fyrirtækið hlaut einnig sérstök verðlaun frá Microsoft í Danmörku að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Creative Business Cup fagnar sprotafyrirtækjum sem sameina skapandi greinar og viðskipti á farsælan hátt. Alls kepptu frumkvöðlar frá 65 löndum um bestu viðskiptahugmyndina og fór keppnin fram dagana 15-17. nóvember.

Genki Instruments komst i 5 landa undanúrslit og eftir að hafa kynnt fyrir 22 manna dómnefnd, fjárfestum og fyrirtækjum í Ráðhúsi Kaupmannahafnar í gær, veittu Haraldur Hugosson þróunarstjóri og Jón Helgi Hólmgeirsson yfirhönnuður verðlaununum viðtöku við hátíðlega viðhöfn.

Hringur til að stjórna sköpun tónlistar

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur Genki Instruments hannað og framleitt hring sem gerir fólki kleift að stjórna tónlistargerð í tölvu með handahreyfingum, líkt og um hefðbundið hljóðfæri væri að ræða.

Sigurvegari keppninnar var fyrirtækið Cell Robot frá Kína en með vöru þeirra er á einfaldan hátt hægt að setja saman vélmenni úr grunneiningum og nýta á margvíslegan hátt.

Í þriðja sæti var fyrirtækið Bildits frá Líbanon en það býður upp á byggingarsett fyrir börn þar sem börn geta byggt hús frá grunni á sama hátt og gert er í raun og veru.