„Við vorum í vandræðum frá því að ég byrjaði,“ segir Anders Ludvigsson, um starfsferil sinn hjá Primera Air í umfjöllun Financial Times um stöðuna á evrópska flugmarkaðnum. Ludvigsson var flugrekstrarstjóri Primera Air á Bretlandi en opinberlega kom í ljós að Primera Air væri á leið í þrot þegar t ölvupóstur sem hann sendi á starfsmenn sína fór í dreifingu á netinu síðdegis mánudaginn 1. október. Í kjölfarið voru flugvélar Primera Air víða um heim kyrrsettar og þúsundir urðu strandaglópar. Andri Már Ingólfsson, eigandi og stofnandi Primera Air, sagði í viðtali Viðskiptablaðið í október að ef Ludvigsson hefði ekki sent umræddan tölvupóst hefði fólk komist til sín heima þann daginn. Ludvigsson hóf störf hjá Primera Air sem flugmaður árið 2006. „Það var alltaf einhver krísa yfirvofandi,“ segir Ludvigsson. Bent er á heimskreppuna árið 2008, kreppuna margra ríkja á evrusvæðinu og hækkandi olíuverð í greininni.

Ludvigsson segir Primera Air hafa verið sveigjanlegt flugfélag sem hafi geta hætt flugleiðum sem ekki gengu og hafið flug á nýjum og álitlegum leiðum með einfaldari hætti en margir aðrir. Félagið hafi þurft að taka áhættu með því að vaxa sem ekki hafi gengið eftir. Primera Air ákvað fyrir að færa sig í meira mæli í áætlunarflug en hafði lengi vel fyrst og fremst sinnt leiguflugi, einna helst fyrir ferðaskrifstofur innan Primera samstæðunnar.

Reksturinn gengur betur í Bandaríkjunum en Evrópu

Í umfjöllun Financial Times er bent á að talsverðar líkur séu á frekari samþjöppun á evrópskum flugmarkaði. Fjallað er um á fjárhagserfiðleika Wow air og fyrirhuguð kaup Icelandair á flugfélaginu sem ekki gengu eftir og viðræðurnar við Indigo Partners, sem enn standa yfir.

Bent er á að rekstrarskilyrði stærstu flugfélaga Bandaríkjanna séu talsvert betri en evrópskra. Markaðshlutdeild fjögurra stærstu flugfélaga Bandaríkjanna sé um 80% í innanlandsflugum á meðan tíu stærstu flugfélög Evrópu nái ekki nema 70% markaðshlutdeild innan álfunnar. Þá hafi rekstrarhagnaður evrópskra flugfélaga sem hlutfall af tekjum hækkað úr 0,7% árið 2012 í 6,9% í fyrra miðað við að rekstrarhagnaður bandarískra flugfélaga hafi batnað úr 3,4% í 11% á sama tímabili. Því segir Daniel Roeska, greinandi hjá Bernstein, að komið sé að ákveðnum kaflaskilum í fluggeiranum og smærri flugfélög muni fara á hausinn á næstu tveimur árum. Til viðbótar við Primera Air urðu flugfélögin Cobalt á Kýpur, Azurair í Þýskalandi, Small Planet Airlines í Litháen og SkyWork í Sviss öll gjaldþrota í haust.

Hærri eldsneytiskostnaður og lægra farmiðaverð er sagt eiga stærstan þátt í rekstrarerfiðleikunum. Þá hafi sætaframboð hafi aukist of hratt. Aukin flugumferð hafi átt þátt auknum seinkunum á flugferðum sem valdi því að flugfélög þurfa að greiða farþegum sínum meira fé í bætur en áður.

FT hefur eftir Carsten Spohr, forstjóra Lufthansa, að fluggeirinn þurfi að gefa eftir vonina um takmarkalausan vöxt. Sætaframboð í Evrópu hafi aukist um 6% á ári frá árinu 2016. Það sé umfram almennt viðmið innan fluggeirans um tvöfalt hraðri vöxt sætaframboðs en  landsframleiðslu, en hagvöxtur í Evrópu hafi verið um 2% á ári undanfarin ár. Fluggeirinn sé því kominn að þolmörkum mögulegs vaxtarhraða.