Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,8% milli júlí og ágúst. ?Hækkunina má rekja til verðhækkunar fjölbýlis sem hækkaði um 1,1% milli mánaða en verð sérbýlis lækkaði lítillega eða um 0,1%,? segir greiningardeild Glitnis.

Ágúst er annar mánuðurinn í röð, segir greiningardeildin, þar sem verð á sérbýli er nær óbreytt frá fyrri mánuði. Það sem af er ári hefur íbúðaverð hækkað um 12,5% og er lítill munur á verðhækkun fjölbýlis og sérbýlis sem hafa hækkað um 12,6% og 12,4% á tímabilinu.

?Aðstæður til húsnæðiskaupa hafa heldur versnað undanfarnar vikur. Vextir á innlendur verðtryggðum lánum hafa hækkað mikið, sérstaklega hjá viðskiptabönkunum. Vextir hjá Íbúðalánasjóði hafa einnig hækkað sem og hjá nokkrum lífeyrissjóðum sem lána verðtryggð lán til húsnæðiskaupa.

Við teljum að þetta eigi eftir að draga úr umsvifum á fasteignamarkaði en möguleikar á gengisbundnum lánum til fjármögnunar húsnæðiskaupa eru þó lítið breyttir og líklegt að sú fjármögnunarleið eigi eftir að aukast og vega á móti. Spenntur vinnumarkaður með litlu atvinnuleysi og hröðum launahækkunum á eftir að styðja við fasteignamarkaðinn á meðan gott atvinnuástand varir. Mikil fjárfesting í íbúðarhúsnæði hefur átt sér stað undanfarin ár og mögulegt að mettunaráhrif mikils framboðs eigi eftir að koma fram þegar líður á veturinn,? segir greiningardeildin.