Greiningardeild Arion spáir því að íbúðafjárfesting aukist um 23% í ár og að samtals nemi aukning íbúðafjárfestingar 80% fram til ársins 2020.

Í nýrri greiningu frá deildinni segir að enn sé skortur á húsnæði en gangi spár eftir sé eingöngu tímaspursmál hvenær nýtt framboð fer að vinna á uppsafnaðri þörf. Helsti óvissuþátturinn sé hins vegar fólksfjölgun en rætist ný mannfjöldaspá Hagstofunnar mun það verða til þess að hægar mun draga úr húsnæðisskorti en ella.

Þá segir jafnframt að vísbendingar um að hægja sé á húsnæðismarkaðinum hrannist nú upp en bæði hefur hægst á hækkun íbúðaverðs en einnig hefur teki að hægja á fjölgun íbúða á sölu frá því í mars til september. Sölutími sé að sama skapi hættur að lengjast.

Greiningardeildin bendir ennfremur á þann möguleika að ef uppsöfnuðum skorti verður mætt og jafnvel gott betur geti verð á eldri íbúðum lækkað og verðlækkun sé eitthvað sem fasteignakaupendur ættu ávallt að hafa í huga. Það sé þó fátt sem bendi til að það geti gerst á næstunni og enn ólíklegra sé að það verði eitthvað í líkingu vði það sem gerðist í kjölfar fjármálakreppunnar.