Til stendur að nafni Íbúðalánasjóðs verði breytt í Húsnæðisstofnun, til að endurspegla breytt hlutverk hans. Verulega hefur dregið úr almennri lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs, og tók sjóðurinn nýlega við umsýslu húsnæðisbóta, sem tóku við af húsaleigubótum sveitarfélaganna.

Til stendur að mótuð verði heildstæð húsnæðisstefna, og Húsnæðisstofnun verði það yfirvald sem fari með stjórn húsnæðismála.

Markmiði Íbúðalánasjóðs var nýlega breytt samkvæmt lögum, en markmið sjóðsins er nú að eigin sögn að „vera leiðandi í rannsóknum á húsnæðismarkaði og styðja þannig við stefnumótun og framkvæma húsnæðisstefnu stjórnvalda.“

Samhliða breyttu hlutverki sjóðsins og tilvonandi nafnabreytingu verður settur á fót „Starfshópur um mótun heildstæðrar húsnæðisstefnu fyrir Ísland“, en hann mun móta tillögur að því hvaða valdheimildir og verkfæri sjóðurinn skuli hafa til að geta uppfyllt sitt nýja hlutverk.