Íbúðamarkaður í Reykjavík hefur náð sér næstum að fullu frá 2008 samkvæmt skýrslu Reykjavík Economics sem Íslandsbanki lét vinna fyrir sig. Fjallað var um skýrsluna á fundi um horfur á íbúðamarkaði sem bankinn hélt á Grand Hótel í gær. Í skýrslunni er enn fremur fjallað um að mikið sé um íbúðir í smíðum og nýjar íbúðir seljist ágætlega. Allar líkur eru á því að íbúðaverð haldi áfram að hækka á þessu ári vegna væntinga um aukinn kaupmátt, stöðugt verðlag og svipað vaxtastig.

Í skýrslunni segir að þegar horft sé til hækkunar raunverðs komi í ljós að samkvæmt vísitölu íbúðaverðs Þjóðskrár Íslands hækkuðu íbúðir á höfuðborgarsvæðinu að jafnaði um 2,6% á árinu 2013. Markaðurinn hafi tekið vel við sér í byrjun árs 2014 en frá mars 2013 til mars 2014 hafi verð hækkað um 8,7% að raungildi og hafi 12 mánaða raunhækkun ekki verið hærri frá því í október 2007 þegar4 verð á íbúðamarkaði hækkaði um 11,7% að raungildi. Það var á hátindi húsnæðisbólunnar.