Íbúðaverð hefur hækkað um 19% að raungildi á tímabilinu mars 2016 til mars 2017. Verð á sérbýli hefur hækkað um 18,2% á sama tímabili og fjölbýli um 19,3%. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Reykjavík Economics um húsnæðismarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu sem að fyrirtækið vann fyrir Íslandsbanka. Skýrslan verður kynnt á sérstökum fræðslufundi í dag klukkan 17 í útibúi Íslandsbanka í Laugardal, á Suðurlandsbraut.

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að stór hópur fólks sé á leið inn á húsnæðismarkaðinn og einnig fer fyrstu kaupendum fjölgandi á markaðnum. Meðalaldur þessa hóps er 32 ár. Þá skapar fólksfjölgun og aðflutningur fólks til landsins náttúrulega eftirspurn eftir húsnæði.

Hæsta meðalverð á fermetra í miðborginni eða innan Hringbrautar og meðal staðgreiðsluverð í hverfinu árið 2016 var 469 þúsund krónur á fermeter. Hlutfallsleg hækkun í hverfum Reykjavíkur var mest í Hólahverfi eða um 19% og Seljahverfi kemur næst á eftir með 18% hækkun. Ef verð á höfuðborgarsvæðinu er skoðað, utan Reykjavíkur, er Seltjarnarnes með hæsta verðið á fermetra eða 437 þúsund krónur. Þá hækkar Seltjarnarnes einnig hlutfallslega mest á árinu 2016 eða um 24%.

Leiga hækkað um 68,1%

Leiga hefur sömuleiðis hækkað, eða um 10,3% á tímabilinu mars 2016 til mars 2017 og leigusamningum hefur sömuleiðis fækkað á tímabilinu. Leiguverð hefur hækkað um 68,1% frá byrjun árs 2011 til loka september 2016. Á meðan hefur verðlag hækkað um 21,1% á sama tíma.

Þá kemur einnig fram að minnkandi atvinnuleysi og traustari tekjuöflun heimila landsins renni sterkari stoðum undir íbúðamarkaðinn og auðveldara er að áætla framtíðartekjur en áður.