Dregið hefur saman með hækkunum launa og íbúðaverðs og hefur ekki munað jafn litlu þarna á milli síðan í júlí árið 2016. Á þetta bendir Una Jónsdóttir hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði.

Má lesa þetta út úr hagtölum fyrir marsmánuð, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag, upp úr nýbirtum tölum Hagstofunnar, sést að laun landsmanna hækkuðu að meðaltali um 0,3% í mars frá fyrri mánuði.

Síðastliðna 12 mánuði hefur vísitalan hækkað um 7,1%. Í mars hækkaði hins vegar íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu um 7,7% og leiguverð á höfuðborgarsvæðinu um 10%. „Ekki hefur munað svona litlu á árshækkun launa og íbúðaverðs síðan í júlí 2016,“ segir Una í fréttatilkynningu frá sjóðnum.

„Fyrir ári síðan, eða í mars 2017 hafði íbúðaverð hækkað um 20,9% á einu ári meðan að laun höfðu einungis hækkað um 5% og leiguverð um 10,3%. Þessi nýja mæling er því enn ein vísbendingin um að verðþróun á íbúðamarkaði sé nú í meira samræmi við launaþróun landsmanna en fyrir ári síðan.“