Fyrstu 155 íbúðirnar hjá leigufélagi ASÍ og BSRB verða auglýstar til leigu á næstu vikum en fyrsta skóflustungan að íbúðum við Mjóaveg 2 í Spönginni, var tekin á föstudag.

Það gæti þurft að draga á milli umsækjenda segir Árni Stefán Jónsson varaformaður Bjargs íbúðafélags að því er RÚV greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma hafa þónokkur félög verið stofnuð og fengið lóðir úthlutaðar í kringum rekstur leigufélaga sem þáðu stofnframlög úr Íbúðalánasjóði í samræmi við lagabreytingar þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur.

Stefnir félag ASÍ og BSRB, Bjarg íbúðafélag, að því að í lok ársins verði bygging hafin á 450 íbúðum og rúmlega þúsund til viðbótar verði byggð á næstu þremur til fjórum árum.

„Það er svona gert ráð fyrir því að fyrstu íbúðirnar verði tilbúnar eftir svona ár,“ segir Árni Stefán en auk þess að vera félagar í ASÍ eða BSRB geta umsækjendur haft að hámarki 5 milljónir í árstekjur.

„Þetta eru íbúðir sem menn fá leigt og geta verið í þessum íbúðum eins lengi og menn kjósa.“

Standa verði í skilum þó sagt rekið án hagnaðar

Árni Stefán segir ekki frágengið hvernig gert verði upp á milli umsækjenda, en að úthlutunarreglurnar verði ákveðnar endanlega á næstu vikum.

Stefnt er að því að leigan eigi ekki að verða hærri en fjórðungur ráðstöfunartekna, en félagið er ætlað að vera rekið án hagnaðar. Samt sem áður er gert ráð fyrir að fólk sem fái úthlutað verði að geta staðið við greiðslur.

„Að lokum gæti þetta litið þannig út að við hreinlega þyrftum að draga. Ef margir eru í svipuðum aðstæðum að þá er engin önnur aðferð til betri, held ég, að það verði bara dregið úr potti.“

Úrval frétta um húsnæðismál og félagsleg leifufélög: