Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves færir út kvíarnar á næsta ári og verður einnig haldin fyrir norðan - það er á Akureyri. Grímur Atlason, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að þetta hafi verið í umræðunni í nokkur ár að færa út kvíarnar á þennan hátt.

„Það er gott að gera þetta til að gleðja. Gleðja Akureyringa, ferðamennina og samfélagið. Tækifærið sem við sjáum í þessu núna er að það er beint flug milli Keflavíkur og Akureyrar. Það þýðir að infrastrúktúrinn er í lagi. Það eru einnig nógu mörg hótel fyrir norðan,“ segir Grímur, sem telur staðsetninguna góða.

Grímur segir einnig gaman að brydda upp á nýjungar á hátíðinni. Hvaða tónleikastaðir koma til greina fer eftir ýmsum þáttum að sögn Gríms. „Það eru nokkrir tónleikastaðir sem koma til greina. Það fer eftir hvað okkur vantar til að gera tónleikana góða,“ segir hann. „Það er alveg á hreinu að þetta verður meðal annars á Græna hattinum,“ bætir Grímur við.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá þá stendur hátíðin undir 0,032% af vergri landsframleiðslu á Íslandi og gæti þarna skapast tækifæri fyrir erlenda ferðamenn og aðra tónleikagesti til að sjá stærri hluta af landinu.