Wow air gerði samning við Airport Associates til að þjónusta vélar félagsins eftir að það komst á snoðir um að KFS yrði mögulega tekið til gjaldþrotameðferðar. Samkvæmt kröfu um gjaldþrotaskipti KFS, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, fór Iceland Express fram á að kröfum að fjárhæð rúmlega 154 þúsund breskra punda og rúmlega 27 milljónum króna yrði lýst við  skipti þrotabús KFS. Það var því Iceland Express, samskeppnisaðili WOW air, sem fór fram á að þjónustuaðili WOW air yrði tekinn til gjaldþrotaskipta.

Þjónustaði Iceland Express

Forsögu málsins má rekja til þess að KFS þjónustaði Iceland Express og systurfélagið Astraeus Airlines frá 1. júní 2011 þar til í nóvember 2011 þegar Astraeus Airlines varð gjaldþrota. Samkvæmt Hilmari Hilmarssyni, eiganda KFS, hætti Iceland Express að greiða reikninga vegna þjónustu KFS í ágúst 2011. Uppsafnaðir reikningar frá KFS til Iceland Express fram til í nóvember nema samtals tæplega 300 þúsund evrum, eða um 45 milljónum króna. Í dag segir Hilmar umrædda kröfu vera nær 400 þúsund evrum vegna innheimtukostnaðar og dráttarvaxta. Eftir að KFS setti reikningana í innheimtu í desember 2011 segir Hilmar að Iceland Express hafi byrjað að senda KFS alls konar gagnkröfur, sem hann segir flestar vera af þeim toga að engin stoð sé fyrir þeim og eingöngu til þess að koma í veg fyrir að greiða réttmætar kröfur KFS.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.