Þetta kemur fram á vef ISI og í tilkynningu frá félaginu til Kauphallarinnar. Viðskiptablaðið greindi frá .

Félagið sagði frá því á þriðjudaginn að hluthafar félagsins hefðu veitt stjórn þess heimild til útgáfu 1.024.977.425 hluta í félaginu í tengslum við yfirtökuna, en fyrrum hluthafar Solo Seafood fá greitt með bréfunum auk 478 þúsund evra, sem er um 61 milljón króna. Markaðsvirði bréfanna er rúmlega 8 milljarðar króna.

„Yfirtakan er mikilvægur liður í virðisaukastefnu okkar, sem felur í sér að samþætta virðiskeðjuna frá uppruna til endanlegs neytanda,“ er haft eftir Helga Antoni Eiríkssyni, framkvæmdastjóra ISI. „Með þrjá stóra hluthafa á sviði íslenskra sjávarafurða, FISK, Nesfisk og Jakob Valgeir, munum við skapa tækifæri í Suður-Evrópu og á öllum þeim markaðssvæðum sem við störfum. Ég tek frábæru starfsfólki Icelandic Iberica Group fagnandi og hlakka til vaxtar starfseminnar í kjölfarið.“

Eigendur Solo Seafood eru fyrirtækin Sjávarsýn, FISK Seafood, Jakob Valgeir og Nesfiskur ásamt Hjörleifi Ágústssyni, framkvæmdastjóra Iberica. Icelandic Iberica er eitt af helstu sjávarútvegsfyrirtækjunum í sunnanverðri Evrópu, með veltu upp á 120 milljóna evra, sem samsvarar ríflega fimmtán milljörðum króna.

Sameiginlega reikna félögin með því selja vörur fyrir meira en 400 milljónir evra, eða 48 milljarðar króna, og búist er við hagnaði upp á meira en tíu milljónir evra fyrir skatt, eða nálægt 1,28 milljörðum króna.