Framkvæmdir standa nú yfir við nýbyggingu þjálfunarseturs Icelandair á Flugvöllum í Hafnarfirði. Byggingin mun hýsa flugherma fyrir tvær flugvélategundir, Boeing 737 MAX og Boeing 767. Sá fyrri kemur til landsins næsta vor en sá seinni um mitt næsta ár og fara þeir strax í notkun. Jafnframt verða í húsinu kennslustofur, verkleg aðstaða fyrir þjálfun áhafna sem og skrifstofurými. Um er að ræða stálgrindarhús sem verður gert fokhelt í næsta mánuði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair.

Flughermar eru notaðir við nýþjálfun og reglubundna þjálfun flugmanna. Þeir eru nákvæmar eftirlíkingar af stjórnklefum viðkomandi flugvélagerðar, þeir líkja eftir flugeiginleikum og unnt er að kalla fram margháttaðar bilanir og óvæntar aðstæður sem og flug við breytileg veðurskilyrði til að reyna á viðbrögð flugmanna.

Fyrir tveimur og hálfu ári tók félagið í notkun Boeing 757-200 flughermi og fluttist þá stærstur hluti þjálfunar flugmanna Icelandair inn í landið. Rekstur hermisins hefur gengið mjög vel og nýting hans mikil. Icelandair er stærsti notandinn, en erlend flugfélög svo sem FedEx, kaupa einnig þjálfun fyrir sína flugmenn í herminum. TRU Flight Training Iceland er dótturfélag Icelandair sem sér um rekstur á flughermum og öðrum þjálfunarbúnaði.

„Frá og með næsta ári mun Icelandair nýta þessar þrjár flugvélagerðir, Boeing 757, Boeing 767 og Boeing 737MAX, í leiðakerfi sínu og því fylgir mikil hagkvæmni að vera með þjálfun flugmanna hér á sama staðnum“, segir Guðmundur Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri TRU Flight Training Iceland. „Auk þess verða hermarnir leigðir út til þjálfunar flugmanna þeirra fjölmörgu flugfélaga sem nota þessar flugvélategundir“.