Icelandair Cargo mun frá og með næsta fimmtudegi, 22. janúar, hefja vikulegt áætlunarflug til Boston með fraktflugvélum. Boston er einn af meginmörkuðum fyrir ferskan fisk í Bandaríkjunum og þangað fer langstærstur hluti af þeim ferska fiski sem Íslendingar flytja til Bandaríkjanna.

„Það er þörf á meira flutningsframboði fyrir ferskan fisk frá Íslandi til Bandaríkjanna á næstu vikum, og höfum ákveðið að mæta því með áætlunarflugi til Boston fram að páskum. Við munum síðan meta hvernig til tekst og ákveða hvernig framhaldið verður“, segir Gunnar Már Sigurfinnsson framkvæmdastjóri Icelandair Cargo.

„Við höfum séð mikla aukningu í sölu á ferskum fiski á Ameríkumarkaði frá árinu 2011. Icelandair Cargo flytur mikið af fiski með farþegavélum Icelandair og þrátt fyrir næstum þreföldun á framboði Icelandair til Ameríku síðustu ár og tvöföldun á ferðum fraktvéla Icelandair Cargo til New York þá hefur það ekki dugað til að sinna þörfinni og þess vegna bætum við nú við þriðju fraktvélinni á Ameríkumarkað.“

Icelandair Cargo er fyrsta fraktflugfélagið frá Evrópu sem hefur reglulegt áætlunarflug til Boston. Icelandair Cargo flýgur þá á fraktvélum þrisvar sinnum í viku til N-Ameríku en auk þess er áætlað að farþegavélar Icelandair fari um 3400 ferðir árið 2015 til N-Ameríku með farþega og frakt.

„Við vonumst til þess að þessi aukning hjálpi íslenskum fiski að ná enn sterkari stöðu á þessum mikilvæga markaði sem Bandaríkin eru fyrir íslenskar afurðir“ segir Gunnar Már. „Leiðarkerfi félagsins bíður upp á einstaka möguleika á að koma ferskum fiski á markað í Bandaríkjunum, en fiskurinn getur verið komin á disk neytenda innan við 48 tímum eftir að hann er veiddur. Það tryggir ferskleika og gæði sem meira að segja innlendir aðilar í Bandaríkjunum og Kanada eiga erfitt að keppa við.“