Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Icelandair ehf. til að greiða dánarbúi Halldórs Þórs Halldórssonar fyrrverandi flugmanns félagsins 68.873.060 krónur, ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði þann 16. júní síðastliðinn.

Halldór hafði starfað hjá Icelandair í 26 ár, þar af helming starfstímans sem flugstjóri en var sagt fyrirvaralaust upp störfum í lok september 2010. Þá var Halldór 59 ára gamall.

Áberandi drukkinn og átt erfitt með gang

Aðdragandi uppsagnar var að Halldór hafði eftir fraktverkefni í Belgíu verið sagður áberandi drukkinn og átt erfitt um gang þegar hann hugðist snúa heim með Icelandair sem almennur farþegi.

Var hann sakaður um kynferðislega áreitni gagnvart flugfreyju og ógnandi tilburði við flugvirkja þannig að flugstjóri hafi þurft að beita hann fortölum til að fá hann til að yfirgefa flugvélina. Auk þess hafi verið kvartað undan dónaskap af hálfu fyrirtækis sem ók honum eftir atburðina.

Sagt upp fyrirvaralaust

Taldi Icelandair að þessi atriði samanlagt hefðu verið alvarleg brot á starfsskyldum Halldórs og honum var sagt upp í kjölfarið. Skilaði hann þá inn vottorði um sykursýki til Icelandair.

Þó flugmálastjórn teldi vottorðið ekki fullnægjandi stefndi Halldór Icelandair vegna brots á veikindarétti sínum en samkvæmt honum ættu flugmenn rétt á 13 mánaða launa í veikindaforföllum. Jafnframt taldi hann sig eiga rétt á að fá starfslokasamning.

Uppsögn dæmd ólögmæt

Með dómi Hæstaréttar 13. febrúar 2013 var riftun ráðningarsamningsins dæmd ólögmæt, því ekki teldist sannað að Halldór hefði drukkið áfengi í óhófi í flugferðinni. Jafnvel þótt sannað væri að Halldór hefði sýnt af sér óviðeigandi hegðun gagnvart flugfreyju þá þótti ekki sannað að um kynferðislega áreitni hafi verið að ræða.

Þótt dóminum hafi þótt ljóst að hegðun hans hefði verið óviðeigandi þótti hún ekki hafa verið þess eðlis að réttlætt gæti fyrirvaralausa uppsögn úr starfi. Hefði Icelandair borið að veita honum áminningu áður en til uppsagnar kæmi.

Hefði átt rétt á 13 mánaða launum í veikindum

Eftir að hafa sent Icelandair álitsgerð um að heilsufar sitt samrýmdist ekki endurnýjun á atvinnuflugmannsskírteini og að ólíklegt yrði að á því yrði breyting fyrir 65 ára afmælisdag hans svaraði Icelandair ekki erindi hans um hvort hann teldist varanlega óvinnufær sem atvinnuflugmaður í kjölfarið.

Því kærði Halldór Icelandair þar sem hann taldi að ef ekki hefði komið til ólögmætrar uppsagnar hans hefði hann átt rétt á andvirði 13 mánaða launa auk andvirðis skírteinistryggingar og dráttarvaxta.