Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Ísland hækkaði um 0,66% í 3,1 milljarða viðskiptum og fór hún upp í 1.920,82 stig.

Gengi bréfa Reita hækkaði mest, eða um 2,98% í 756 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt voru mestu viðskiptin í kauphöllinni í dag. Fór það upp í 76,10 krónur hvert bréf.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa TM, eða 2,10%, upp í 31,55 krónur, í  þó ekki nema 46 milljóna króna viðskiptum.

Þriðja mesta hækkunin var svo á gengi bréfa Kviku banka, en þau komu til viðskipta á aðalmarkaði kauphallarinnar á fimmtudaginn í síðustu viku. Fór gengið upp um 1,90% í 549 milljóna viðskiptum, upp í 10,19 krónur.

Icelandair lækkaði mest meðan krónan styrktist

Af einungis fjórum félögum sem lækkuðu í virði í kauphöllinni í dag, lækkaði gengi bréfa Icelandair mest, eða um 3,19%, í þó ekki nema 46 milljóna króna viðskiptum, og endaði gengi bréfa félagsins í vikunni í 10,00 krónum.

Næst mest var lækkun á gengi bréfa Origo, eða um 0,70%, niður í 21,15 krónur, í 88 milljón króna viðskiptum.

Íslenska krónan styrktist svo gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, mest gagnvart Breska pundinu, sem veiktist um 0,78% á móti krónunni, og fæst pundið nú á 154,23 krónur.

Bandaríkjadalur veiktist hins vegar minnst gagnvart krónunni meðal helstu viðskiptamyntanna sem boðaðar eru saman í Keldunni, eða um 0,26%, niður í 118,56 krónur. Evran lækkaði um 0,30%, niður í 132,96 krónur.