*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 6. júlí 2012 16:22

Icelandair: Farþegum fjölgar umfram framboð af flugi

Farþegafjöldi Icelandair hefur aukist um 18% á milli ára það sem af er ári. Farþegum Flugfélags Íslands fjölgar einnig.

Ritstjórn
Gísli Freyr Valdórsson

 Icelandair flutti tæplega 246 þúsund farþega í júní sl., sem er 15% fjölgun á milli ára í júnímánuði. Framboð félagsins í mánuðinum jókst einnig um 15% á milli ára. Sætanýting Icelandair í júní var 82,5% og jókst um tæp 2% á milli ára. Þá hefur sætanýtingin aukist um rúm 3% á milli ára það sem af er þessu ári.

Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningstölum frá Icelandair Group en félagið hefur nú flutt tæplega 853 þúsund farþega það sem af er ári sem er 18% fjölgun á milli ára. Þá hefur framboð félagsins aukist um 14% á milli ára, þannig að farþegafjöldinn hefur aukist umfram framboð.

Heildarfjöldi farþega hjá Icelandair í fyrra nam tæplega 1,75 milljón farþega, samanborið við tæplega 1,5 milljón farþega árið 2010 og tæplega 1,3 milljón farþega árið 2009. Farþegafjöldi félagsins jókst þannig um 18% á milli ára  fyrra.

Í tilkynningu til Kauphallar kemur fram að farþegum fjölgaði mest á N-Atlantshafsmarkaðinum eða um 24%. Aukningin á ferðamannamarkaðinum til Íslands nam 17%.

Nokkur aukning hjá Flugfélagi Íslands vegna Grænlands

Farþegum Flugfélags Íslands, sem jafnframt er í eigu Icelandair Group, fjölgaði um 5% á milli ára í júní þegar félagið flutti rúmlega 35 þúsund farþega. Framboð félagsins jókst um 4% á milli ára í júní. Sætanýtingin nam um 71%, jókst um hálft prósentustig á milli ára og hefur þá aukist um 2% það sem af er ári. Mestu munar um aukið framboð af flugi til Grænlands.

Þá hefur farþegafjöldi Flugfélags Íslands aukist um 4% á milli ára á fyrri helmingi ársins, en framboðið staðið í stað.

Nýting flugflota sem nýttur er til útleigu en er í eigu Icelandair Group dróst saman um 7% á milli ára í júní og hefur þannig dregist saman um 10% á milli ára það sem af er þessu ári. Hér er átt við vélar í eigu samstæðunnar, meðal annars vélar sem leigðar eru út á vegum Lofteidir Icelandic. Þetta má að hluta til rekja til þess að fraktvélar í leiguflugsverkefnum eru einni færri en í fyrra. 

Fraktflug á vegum Icelandair Cargo jókst um 20% á milli ára í júní og hefur aukist um 23% á milli ára það sem af er þessu ári. Þá hefur framboðið af fraktflugi aukist um 10% á milli ára það sem af er ári.

Nýting hótelherbergja í eigu samstæðunnar jókst um 2,7% á milli ára í júní og hefur þá aukist um rúm 5% það sem af er ári. Á sama tíma hefur framboðið af hótelrými aukist um 17% það sem af er ári. Seldum gistinóttum fjölgarði um 17% á milli ára í júní og hefur fjölgað um 27% það sem af er ári.