Frá opnun markaða í morgun hafa hlutabréf í Icelandair fallið um 3,6% úr 9,28 í 8,95 krónur á hlut. Gengi bréfanna hefur ekki verið jafn lágt síðan í ársbyrjun 2013, en þá hafði verðið verið lágt frá hruni.

Icelandair hefur lækkað töluvert nýlega í kjölfar afkomuviðvörunar þann 8. júlí síðastliðinn, en bréfin hrundu um fjórðung daginn eftir birtingu hennar.

Í tilkynningunni var raski á flugáætlun; seinkun á innleiðingu flugvéla, veðurfari og fleiru kennt um aukinn kostnað, auk þess sem tekjur voru sagðar hafa tapast. Þá voru spár félagsins um hækkandi verð í kjölfar mikillar hækkunar eldsneytisverðs sagðar ekki hafa gengið eftir.