Stjórn Icelandair group hefur ákveðið að nýta ekki heimild til að halda hluta af fyrirhuguðu 625 milljóna hlutafjárútboði félagsins núna í desember, heldur verður allt útboðið haldið fyrir lok 1. ársfjórðungs 2019. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í lok nóvember átti að ljúka fyrri áfanga hlutafjárútboðsins fyrir 14. desember næstkomandi.

Þegar tilkynnt var um hlutafjárútboðið var enn stefnt að sameiningu félagsins við Wow air, sem síðar var hætt við. Bauðst núverandi hluthöfum að bæta við sig bréfum fyrir nafnvirði allt að 499 milljóna króna, þar sem hver hluthafi gat ekki keypt fyrir minna en 100 þúsund evrur eða andvirði 14 milljóna íslenskra króna.

Síðan áttu þessum sömu aðilum, og hugsanlega öðrum aðilum að bjóðast að kaupa 126 milljón hluti til viðbótar og var tillagan gild í ár, eða fram til 1. september. Samkvæmt ákvörðun stjórnar nú verður þess í stað stefnt að einu útboði, með forgangsréttarfyrirkomulagi þar sem boðið verður hlutafé að nafnvirði allt að 625 milljóna króna fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2019.

Stjórn mun síðar ákvarða stærð útboðsins, útboðsgengi, greiðslukjör hinna nýju hluta auk annarra skilmála útboðsins. Tilgangur félagsins er m.a. sagt vera til að grípa vaxtatækifæri í kjölfar afhendingar á sex nýjum Boeing MAX véla á næsta ári.

Miðað við gengi bréfa Icelandair við lokun markaða í dag, 8,01 krónu, er heildarverðmæti útboðsins rétt rúmlega 5 milljarðar íslenskra króna. Þann 23. nóvember síðastliðinn var hlutabréfavirði Icelandair nokkuð hærra svo heildarvirði var þá reiknað sem 7,4 milljarða króna.