*

miðvikudagur, 21. nóvember 2018
Innlent 13. apríl 2018 08:29

Icelandair hækkaði um 2,86%

Einungis tvö félög lækkuðu í virði í kauphöll Nasdaq Iceland í gær, og hækkaði Úrvalsvísitalan um 1,21%.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði í viðskiptum gærdagsins um 1,21% og fór hún upp í 1.782,49 stig. Markaðsvísitala Gamma hækkaði um 0,29% í 6,4 milljarða viðskiptum, þar af námu hlutabréfaviðskipti 2,25 milljörðum króna. Hækkaði Hlutabréfavísitala Gamma um 0,95% en Skuldabréfavísitala Gamma hækkaði um 0,06%.

Einungis tvö félög lækkuðu í verði í viðskiptum dagsins. Annars vegar TM, sem lækkaði um 0,42% niður í 35,80 krónur, en það var í einungis 2 milljóna viðskiptum. Hins vegar lækkaði HB Grandi um 0,17% í 45 milljóna viðskiptum og er gengi bréfa félagsins nú 29,80 krónur.

Mest var hins vegar hækkun bréfa Icelandair, eða 2,86% í jafnframt mestu viðskiptunum, eða fyrir 637 milljónir króna. Fæst hvert bréf félagsins í upphafi nýs viðskiptadags því á 14,40 krónur. Næst mest var hækkun á gengi bréfa Origo, eða 2,39% og fóru þau í 23,55 krónur hvert bréf. Viðskiptin voru þó lítil, eða fyrir rétt um 8 milljónir króna.

Loks hækkaði gengi bréfa Reginn um 2,04% í 186 milljóna viðskiptum, bréfin fóru í 25,05 krónur. Hin tvö fasteignafélögin hækkuðu einnig um meira en eitt prósent, sem og Hagar, öll í viðskiptum fyrir meira en 150 milljónir króna.

Stikkorð: Icelandair Reginn TM HB Grandi Reitir Eik Nasdaq Iceland kauphöll Origo