Úrvalsvísitala Kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,88% í dag og stendur því nú í 1.752,53 stigum. Heildarvelta á mörkuðum nam 9,3 milljörðum, þar af var velta á hlutabréfamakarði 2,8 milljarðar og velta á skuldabréfamarkaði 6,5 milljarðar.

Gengi hlutabréfa Icelandair Group hækkaði mest í dag eða um 3,79% í 795 milljón króna viðskiptum. Í gærkvöldi kynnti félagið flutningatölur félagsins í júní en þær voru nokkuð jákvæðar og gæti það hafa haft jákvæð áhrif á gengi bréfa félagsins í dag. Gengi bréfa Haga lækkaði hins vegar um 2,92% í 356,4 milljón króna viðskiptum, en í fyrradag sendi félagið frá sér afkomuviðvörun, þar sem að vísað var til þess að aukin samkeppni myndi hafa áhrif á rekstur félagsins á öðrum ársfjórðungi.

Gengi bréfa fasteignafélaganna Eikar og Regins lækkaði í dag, Eikar um rúmlega 1% í 43,6 milljón króna viðskiptum og Regins um 1,67% í 100,5 milljón króna viðskiptum. Gengi bréfa TM hækkaði hins vegar um 1,84% í 142 milljón króna viðskiptum.

Vísitölur GAMMA

Markaðsvísitala GAMMA hækkaði um 0,4% í dag í 9,2 milljarða viðskiptum. Hlutabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,7% í dag í 2,7 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,3% í dag í 6,1 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,5% í 0,1 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði lítillega í 5,9 milljarða viðskiptum. Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa hækkaði lítillega í dag í 0,4 milljarða viðskiptum.