Icelandair hækkaði um 3,1% í 830 milljón króna viðskiptum. Gengi bréfa félagsins lækkaði í fyrstu viðskiptum í dag en þróunin snerist við eftir því sem leið á daginn. Í gærkvöldi greindi félagið að það þyrfti að draga úr sætaframboði um 5% þar sem stefnir í að kyrrsetning 737 Max flugvéla dragist á langinn.

Gengi bréfa í Heimavöllum hækkaði mest í viðskiptum dagsins eða um 6,84% eftir að hafa lækkað um 8% í gær. Velta með bréf Heimavalla nam 11 milljónum króna í sjö viðskiptum. Á miðvikudag var greint frá því að félagið AU 3 hefði fallið frá kauptilboði á 27% hlut í félaginu þar sem afskráningu þess hefði verið hafnað.

Alls voru 5,1 milljarðs króna viðskipti í Kauphöllinni og hækkuðu bréf 16 félaga af 19. Úrvalsvísitalan hækkað um 0,64% og stendur nú í 2129,9 stigum. Einingis bréf Skeljungs lækkuðu í verði og það um 0,23%.

Þá hækkaði Eimskip um 1,9% en félagið birti uppgjör í gær þar sem fram kom að EBITDA félagsins jókst en hagnaður dróst saman milli ára. Mest viðskipti voru með bréf Arion banka eða 924 milljónir króna, og hækkuðu bréf bankans um 1,23%.