Icelandair hefur ákveðið að hefja heilsársflug til bandarísku borgarinnar Dallas á næsta ári. Borgin verður tuttugasti áfangastaðurinn í Norður-Ameríku sem Icelandair býður upp á í leiðakerfi sínu, en nýlega kynnti félagið Cleveland sem áfangastað. Flugið til Dallas hefst í maí 2018 og flogið verður fjórum sinnum í viku. Sala er þegar hafin.

Dallas er kjarninn í einu stærsta þéttbýlissvæði Bandaríkjanna, með um 7,5 milljónir íbúa. Borgin er í norðurhluta Texas og er nú ört vaxandi hátækniborg með öflugu viðskiptalífi og menningarstarfi. Þá er borgin stór samgöngumiðstöð fyrir suðurhluta Bandaríkjanna og Suður-Ameríku og þar leikur Dallas Fort-Worth flugvöllurinn sem Icelandair flýgur á aðalhlutverk.

„Við höfum lengi horft til Dallas sem áfangastaðar sem fellur vel að leiðakerfi okkar og þéttir og styrkir tengiflugið til og frá Evrópu. Flugtíminn er tæplega 8 klukkustundir og Boeing 757 vélar okkar eru afar hagkvæmur kostur fyrir þessa flugleið“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. Með Dallas fjölgar áfangastöðum Icelandair í 49 í heild.

Um Icelandair:

Icelandair hefur verið leiðandi í flugi og ferðaþjónustu á Íslandi í 80 ár segir í fréttatilkynningu félagsins. Leiðarkerfi félagsins er hugsað og skipulagt sem tenging á milli meginlands Evrópu og Norður-Ameríku og hefur margfaldast að umfangi frá árinu 2009.

Þá voru farþegar um 1,3 milljónir en á þessu ári er gert ráð fyrir að þeir verði rúmlega 4 milljónir. Í dag flýgur félagið til 18 áfangastaða í Bandaríkjunum og Kanada og 29 borga Evrópu og er stöðugt að styrkja leiðarkerfi sitt. Icelandair býður upp á yfir 600 klukkustundir af afþreyingu fyrir alla fjölskylduna í sætisbaki og þráðlaust net allt frá því stigið er um borð og þar til komið er í flugstöð á öllum flugleiðum félagsins.