Icelandair mun 3. nóvember næstkomandi hefja beint flug til Tegel flugvallar í Berlín allan ársins hring. Flogið verður þrisvar í viku til að byrja með. Sala farmiða hefst fimmtudaginn 24. ágúst. Flogið verður á föstudegi, sunnudegi og mánudegi fyrst um sinn, en gert er ráð fyrir að fjölga ferðum enn frekar næsta sumar. Berlín verður 47. áfangastaðurinn í leiðakerfi Icelandair. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair.

„Berlín er fjórði áfangastaður okkar í Þýskalandi, auk Frankfurt, Munchen og Hamborgar, og mun styrkja leiðarkerfi okkar yfir Atlantshafið með því að bjóða farþegum upp á þægilega tengingu á milli Evrópu og Norður-Ameríku,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. „Berlín er stærsta borg Þýskalands og býr yfir merkilegri sögu, fjölbreyttu menningarlífi og líflegu næturlífi. Borgin hefur lengi verið vinsæl meðal Íslendinga, bæði til búsetu og heimsóknar, enda finna allir eitthvað sitt við hæfi þar. Það er því ánægjulegt að geta þjónustað þá landa okkar sem þangað sækja og við erum stolt af því að geta nú boðið bestu upplifunina í flugi milli Berlínar og Íslands,“ segir Birkir.

Tækifæri

Nýverið var greint frá því að forsvarsmenn þýska flugfélagsins Airberlin hafi farið fram á greiðslustöðvun . Þá var bent á að í falli Airberlin gætu reynst talsverð tækifæri fyrir íslensku flugfélögin Icelandair og Wow air að því er kemur fram í greiningu Túrista . Icelandair flaug til Berlínar allan ársins hring fyrir efnahagsáfallið 2008.

Stærsti markaðurinn sem Airberlin myndi skilja eftir fyrir íslensku félögin eru allir þeir sem vilja fljúga á milli Berlínar og Norður-Ameríku. Airberlin flýgur frá Berlín til Los Angelsen, San Fransisco, Miami, Chicago og New York. Allar þessar fimm borgir eru hluti að leiðakerfi Wow air en Icelandair flýgur aðeins til þeirra tveggja síðastnefndu.