Icelandair er búið að íhuga að hefja áætlunarflug til Seattle í nokkur ár en fyrir fimm vikum hafði félagið afspurn af því að SAS myndi leggja niður áætlunarflug sitt til borgarinnar.

Þar var síðan fyrir rúmum tveimur vikum sem SAS ákvað að hætta að fljúga til Seattle og við það var allt sett í gang hjá Icelandair við að undirbúa áætlunarflug þangað.

Þetta segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í samtali við Viðskiptablaðið en eins og áður hefur komið fram tilkynnti Icelandair í dag að félagið hygðist hefja áætlunarflug í júlí en þangað verður flogið fjórum sinnum í viku.

Birkir segir að mikil farþegaumferð sé milli Skandinavíu og Seattle þar sem margir íbúar á svæðinu eigi ættir sínar að rekja til Skandinavíu. Því sér félagið fram á góða sætanýtingu á flugleiðinni en eins og fram kom í tilkynningu Icelandair fyrr í dag er gert ráð fyrir að um 93% farþega verði útlendingar.

Flug frá Keflavík til Seattla tekur rúmar sjö klukkustundir, sem er svipaður tími og það tekur að fljúga til Orlando í Flórída. Birkir segir að margir muni nýta sér millilendingu á Íslandi í stað þess að lengja ferðatíma sinn með því að fljúga fyrst til austurstrandar Bandaríkjanna og taka þaðan aftur langt flug til Seattle.

Birgir segir að flugleiðin hafi ekki lengur hentað SAS sem skyldi og því hafi félagið ákveðið að hætta áætlunarflugi þangað. Flugtíminn frá Skandinavíu er það langur að félagið þurfti að hafa að 2 áhafnir um borð sem aftur þyrftu að hvíla sig mun lengur og því hafi flugið þangað verið torvelt. Þá hafi félagið notað stórar vélar (Airbus 340) sem sjaldan náðist að fylla. Boeing vélar Icelandair eru hins vegar minni og því meiri líkur á að ná betri sætanýtingu.

Ekkert líkt og San Francisco

Aðspurður hvort eitthvað sé líkt með áætlunum félagins til Seattle og áætlunarflugi til San Francisco segir Birkir að um mjög ólíkt verkefni sé að ræða. Samkeppnin til San Francisco hafi verið hörð og erfitt hafi reynst að ná góðri sætanýtingu fram og til baka á þeirri flugleið.

Þá segir Birkir að einni hafi reynst erfitt að fella flugleiðina til San Francisco í áætlunarkerfi Icelandair. Hann minnir á að mun styttra sé til Seattle og því sé auðveldar að nýta vélina í áætlunarkerfi félagsins.

Til að mæta auknum umsvifum mun Icelandair fjölga um eina vél í flota sínum en sú vél er í eigu Icelandair Group og verður tekin úr leiguverkefnum félagsins.