*

miðvikudagur, 23. janúar 2019
Innlent 16. apríl 2018 13:13

Icelandair hótel kaupa Hótel Öldu

Hótel Alda bætist við fimm hótel Icelandair keðjunnar í Reykjavík, en um er að ræða 89 herbergja hótel í miðborginni.

Ritstjórn
Hótel Loftleiðir, nú kallað Reykjavik Natura, er eitt sögufrægra hótela í Icelandair keðjunni
Aðsend mynd

Icelandair hótel hafa gengið frá kaupum á Hótel Öldu við Laugaveg, en það tók til starfa vorið 2014. Á hótelinu eru 89 herbergi og verður það áfram rekið undir sama nafni að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Húsnæði hótelsins hefur á undanförnum árum verið algjörlega endurnýjað að innan sem utan. Eftir kaupin á Hótel Öldu mun herbergjafjöldi Icelandair hótela alls telja 1.937 herbergi um land allt, 876 í Reykjavík og 450 herbergi á landsbyggðinni í rekstri allt árið en þar að auki 611 Eddu hótelherbergi í sumar rekstri.

Magnea Þ. Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair hótela segir kaupin lið í að þróa Reykjavíkurborg sem áfangastað. „Hótel Alda er spennandi viðbót við hótelstarfsemi okkar í höfuðborginni og með auknu umfangi náum við fram enn frekari hagkvæmni í rekstri félagsins,“ segir Magnea.

„Miðbær Reykjavíkur er lang fjölmennasti ferðamannastaður landsins og við viljum taka þátt í að þróa borgina sem áfangastað og byggja upp gistimöguleika fyrir ferðamenn sem sækjast eftir gæðaupplifun.“

Um Icelandair hótel:

Icelandair hótel reka leiðandi gæðahótel á Íslandi. Eftir kaupin á Hótel Öldu eru hótelin í rekstri Icelandair hótela þrettán talsins. Á landsbyggðinni eru Icelandair hótel á Akureyri, við Mývatn og á Héraði. Einnig eru sérleyfishótel á Flúðum, Klaustri, Hamri og í Vík. Icelandair hótel reka einnig sumarhótelkeðjuna Hótel Eddu, með tíu hótel um land allt.

Önnur hótel félagsins í Reykjavík eru:

  • Reykjavík Natura,
  • Reykjavík Marina,
  • Hilton Reykjavík Nordica,
  • Canopy Reykjavik | City Centre
  • Reykjavík Konsúlat hótel.