Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,33% í tæplega 1,7 milljarða viðskiptum og stóð hún í 1.631,19 stigum við lok viðskipta.

Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,23% í rúmlega 9,1 milljarða viðskiptum og stendur hún nú í 1.253,66 stigum.

Icelandair og Marel í mestu viðskiptunum

Mest viðskipti voru með bréf Icelandair Group og Marel, og lækkaði Icelandair um 1,00% í tæplega 561 milljón króna viðskiptum.

Fæst nú hvert bréf félagsins á 14,85 krónur, en við lokun markaða á þriðjudag áður en félagið birti afkomuviðvörun sína var gengið hins vegar 22,10 krónur á hlut. Nemur lækkunin síðan þá því 32,8%.

Viðskipti með bréf Marel námu 510 milljónum en gengi bréfa félagsins hélst það sama eða 277,50 krónur.

Reginn og TM hækkuðu mest

Mest hækkun var á bréfum í Reginn, eða 1,34% í 25 milljón króna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 26,40 krónur.

Næst mesta hækkunin var á bréfum TM eða 1,03% í 117,5 milljón króna viðskiptum. Gengi bréfa félagsins er nú 29,30 krónur við lok viðskipta.

Össur, Skeljungur og Eimskip lækkuðu

Mest lækkun var hins vegar á bréfum Össurar, eða 3,80% í þó ekki nema 5 milljón króna viðskiptum. Össur skilaði ársuppgjöri sínu í morgun eins og Viðskiptablaðið hefur þegar fjallað um.

Næst mesta lækkunin var á bréfum Eimskips og Skeljungs, eða 1,61% í hvoru tilviki fyrir sig. Viðskiptin með bréf Eimskips námu 65 milljónum króna og fæst nú hvert bréf félagsins á 305,50 krónur.

Viðskiptin með bréf Skeljungs námu tæpum 66 milljónum króna og er hvert bréf félagsins nú verðlagt á 6,13 krónur.